138. löggjafarþing — 57. fundur,  21. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[18:34]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hefur sagt að Brussel-viðmiðin séu ekki inni í þessu samkomulagi, þar sem var eiginlega tekið fram að það ætti að vera trygging fyrir þjóðina, trygging fyrir því að hægt sé að byggja hér upp aftur sterkt atvinnulíf sem getur staðið undir öllum þeim bótum og velferðarkerfi sem við höfum byggt upp.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Eftir ár stöndum við á þessum sama stað og verðum að ræða fjárlög fyrir árið 2011, hvernig hugnast hv. þingmanni að taka á þeim vanda og þeim gífurlega niðurskurði sem þá þarf, þegar bæst hafa við þessir geysilegu vextir sem eru á Icesave, sú mikla skuld sem þegar hefur orðið upp á 150 milljarða til viðbótar, plús svo skuldin sjálf upp á 600 milljarða eða hvað það nú er, hvernig heldur hv. þingmaður að niðurskurðurinn verði þá?