138. löggjafarþing — 58. fundur,  21. des. 2009.

þjóðgarðurinn á Þingvöllum.

93. mál
[20:19]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Mér þykir það miður að meiri hluti þings skuli ekki hafa tekið meira tillit til þeirra sjónarmiða sem ég kynnti í ræðum mínum við 1. og 2. umr. sem voru auk þess í raun endurómur þeirra athugasemda sem bárust allsherjarnefnd. Ég kalla á það að þingið muni taka þetta mál upp til endurskoðunar í heild sinni, ekki síst í ljósi þeirrar umræðu sem hér skapaðist í dag af hálfu nokkurra hv. þingmanna sem tóku undir þau sjónarmið að óeðlilegt væri að Alþingi liti svo á að í frístundabyggðinni, sem svo sannarlega er ein sú elsta á landinu sem er innan þjóðgarðsins þar sem fólk býr og á sínar eignir, séu engin réttindi eða skyldur settar á þá byggð með sama hætti og menn hafa sett á aðrar byggðir. Þetta segi ég þó með því fororði eða þeirri undantekningu sem kom fram í ræðum mínum að það væri ekkert óeðlilegt við það að um þessa frístundabyggð giltu sérstakar reglur, enda væri hún innan þjóðgarðsins á Þingvöllum. Það eru auðvitað frístundabyggðir eða frístundahús í fleiri þjóðgörðum og við þyrftum að skoða það í heild sinni.

Mér finnst það jafnframt dapurlegt að þar sem þjóðgarðurinn á Þingvöllum er allur innan Bláskógabyggðar skuli menn hunsa það að bæta fulltrúa sveitarfélagsins við sem áheyrnarfulltrúa. Mér finnst það dapurlegt vegna þess að ég hefði talið að hin nýja stjórnsýsla og opnir tímar mundu kalla á það að stjórnsýslan yrði betri með því móti frekar en að við værum eingöngu að skipa þingmenn í þá nefnd án þess að sveitarfélagið hefði beina aðkomu að því vegna þess að á síðustu árum hafa alls kyns árekstrar verið, m.a. vegna samskiptaleysis, og ég hefði talið að þetta væri snjallt.

Að þessu þó sögðu mun ég ekki greiða atkvæði gegn frumvarpinu því að það er með þeim hætti að við erum fyrst og fremst kannski að tryggja ákveðna stöðu þjóðgarðsins og Þingvallanefndar í stjórnsýslunni gagnvart frístundabyggðinni, en ég hefði talið eðlilegra að menn hefðu tekið meira tillit til þeirra sjónarmiða sem fram hafa komið í málinu. Ég mun hins vegar sitja hjá við atkvæðagreiðsluna, hvorki greiða atkvæði með né gegn frumvarpinu.