138. löggjafarþing — 58. fundur,  21. des. 2009.

eignarhlutur ríkisins í Íslandsbanka hf., Arion banka hf. og NBI hf.

336. mál
[20:29]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Hér er komið til umræðu mál sem að mínu mati endurspeglar þau vinnubrögð sem hafa verið viðhöfð í sölum Alþingis á undanförnum dögum. Reynt var að breiða yfir málið og láta líta út eins og hér væri um eitthvert smámál að ræða en sem betur fer virðast a.m.k. einhverjir í ríkisstjórninni hafa áttað sig á að það væri algjörlega ótækt að selja bankana eða ráðstafa þeim án þess að fyrir því væri heimild í lögum. Málið barst inn á borð okkar nefndarmanna í fjárlaganefnd morguninn eftir að við kláruðum fjáraukalögin en að sjálfsögðu hefði þessi heimild átt að vera þar inni.

Mér finnst stjórnarliðar hafa talað heldur léttvægt um það þegar ríkið ráðstafar að nýju eignarhluta þess í bönkunum. Við skulum hafa í huga að sú ráðstöfun að selja bankana á sínum tíma hefur verið afar umdeild og það má í rauninni segja að verið sé að gera slíkt hið sama hér. Ríkisendurskoðun hefur bent á að þessi hlutur ríkisins væri 100% í eigu þess. Það var ríkið sem stofnaði nýja kennitölu og var eigandi alls hlutafjár. Nú vilja stjórnarliðar ekki kannast við að hér sé um sölu að ræða heldur einhvers konar breytingar á eignarhluta ríkisins. Það skiptir engu máli í mínum huga hvaða nöfnum þetta er nefnt, það þarf að vera skýr heimild í fjárlögum eða fjáraukalögum fyrir ráðstöfun með ríkiseigur, ég tala ekki um þegar um er að ræða Arion banka, Íslandsbanka og NBI hf.

Í stuttu máli er sagan þannig að fjárlaganefnd ritaði Ríkisendurskoðun bréf 15. desember sl. og óskaði eftir að Ríkisendurskoðun legði mat á hvort um sölu væri að ræða á Íslandsbanka hf. og Arion banka en nýverið eignaðist skilanefnd Glitnis hf. fyrir hönd kröfuhafa 95% hlutafé í Íslandsbanka hf. Einnig eignaðist skilanefnd Kaupþings nýverið fyrir hönd kröfuhafa 87% hlutafjár í Arion banka og þá hefur ríkisstjórnin einnig selt hluta af eign ríkissjóðs í NBI hf.

Í 4. gr. fjáraukalaga fyrir árið 2008 kom fram heimild fyrir stofnun bankanna en þar segir, með leyfi forseta:

„Að stofna þrjú ný fjármálafyrirtæki á grundvelli 1. mgr. 1. gr. laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., og leggja hverju þeirra til 775 millj. kr. í stofnfé.“

Í 6. gr. fjárlaga 2009 er eftirfarandi heimild:

„Að leggja þremur nýjum fjármálafyrirtækjum sem stofnuð hafa verið á grundvelli 1. mgr. 1. gr. laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., samtals allt að 385 milljarða kr. í eigið fé.“

Eins og ég sagði áðan taldi Ríkisendurskoðun að í yfirtöku á meiri hluta hlutabréfa í Íslandsbanka og Arion banka teldist ráðstöfun á eignum ríkisins sem gera þurfti grein fyrir í 6. gr. fjáraukalaga 2009, samanber til hliðsjónar ákvæði 29. gr. fjáraukalaga. Ríkisendurskoðun og fjármálaráðuneytinu var falið að semja frumvarp sem heimilaði þessa gjörninga ríkisstjórnarinnar en ég tel það ámælisvert og gagnrýni að þessarar heimildar sé leitað hér og nú. Nægur tími var til þess að afla þessarar heimildar fyrir fram og ég tel að það verði að vísa þessum gjörningi og ábyrgð á honum yfir á ríkisstjórnina.

Ég hef efasemdir um að þessi gjörningur standist stjórnarskrá. (ÁÞS: … réttarríki.) Í 40. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944, kemur fram — og það væri gott ef hv. þm. Árni Þór Sigurðsson hlustaði á upplestur minn úr stjórnarskránni, ég veit að hann er áhugamaður. Þar segir, með leyfi forseta:

„Engan skatt má á leggja né breyta né af taka nema með lögum. Ekki má heldur taka lán, er skuldbindi ríkið, né selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum landsins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt lagaheimild.“

Virðulegi forseti. Ég tel að jafnvel þótt á þessu hafi verið misbrestur í gegnum tíðina séu þetta slæm vinnubrögð sem við eigum að láta af á Alþingi. Ég ítreka að að mínu mati hefði verið hægt að setja þetta inn í fjáraukalög ef menn hefðu verið á tánum og ég tel að menn séu enn að framkvæma hér gjörning sem setja má spurningarmerki við að standist stjórnarskrá lýðveldisins.

Um þetta mál er svo sem ekki miklu meira að segja, ábyrgð á þessu, ábyrgð á einkavæðingu ríkisbankanna er alfarið í höndum ríkisstjórnarinnar.