138. löggjafarþing — 58. fundur,  21. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[21:42]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Nokkrir ágætir punktar komu fram í ræðu hv. þingmanni. Ég er svo sem sammála því mati hv. þingmanns að núverandi ríkisstjórnar verður líklega helst minnst fyrir annars vegar Icesave-klúðrið og hins vegar hvernig hún hefur tekið á vandanum varðandi tekjuöflun og niðurskurð. En er ekki hv. þingmaður sammála mér um það að í rauninni er þetta tvennt alveg nátengt? Þingmaðurinn nefndi að vasapeningar elli- og örorkulífeyrisþega yrðu skornir niður um, ef ég heyrði rétt, 35 milljónir. Sú upphæð er býsna há og hefur eflaust sitt að segja fyrir þá sem verða fyrir skerðingunni en þetta eru hins vegar, ef mér reiknast rétt til, ekki nema u.þ.b. 7 klukkutímar og 40 mínútur af vöxtum á Icesave-málinu, eingöngu vöxtunum og vextirnir lenda alltaf óhjákvæmilega á íslenskum almenningi. Má því ekki segja að þetta tvennt sem þessarar ríkisstjórnar verður helst minnst fyrir, Icesave-klúðrið og klúðrið í fjárlagagerðinni, sé nátengt og þá í framhaldi af því segja að það hefði kannski verið þess virði að standa fastar í lappirnar og semja ekki svona svakalega af sér þegar þessi skerðing sem elli- og örorkulífeyrisþegar eiga að lenda í núna dugar ekki fyrir nema 7 klukkutíma og 40 mínútna vöxtum af Icesave-láninu?