138. löggjafarþing — 58. fundur,  21. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[21:44]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ítreka það bara og tek undir með hv. þingmanni að núverandi hæstv. ríkisstjórnar verður fyrst og fremst minnst fyrir Icesave-klúðrið. Það er komið í ljós núna, bara á undanförnum klukkutímum og dögum að akkúrat þau haldreipi sem hæstv. fjármálaráðherra hefur haft, annars vegar þegar hann veifaði hér margsinnis blöðunum sem búið var að skrifa undir, og nú er fyrrverandi utanríkisráðherra búin að slá það algjörlega úr höndunum á honum, það er bara núllstillt, þau rök eru nú algjörlega farin. Síðan hélt hæstv. fjármálaráðherra mjög þróttmikla ræðu í lokin á Icesave-umræðunni síðustu og þá fór hann að tala mjög fjálglega um það að menn væru að gera lítið úr því að greitt yrði töluvert inn á kröfurnar á næsta ári. En það liggur bara fyrir og er búið að liggja fyrir lengi að slitastjórn og skilanefnd Landsbankans segja að það verði ekkert greitt inn á kröfurnar á næsta ári. Það er því búið að slátra tveimur helstu haldreipum hæstv. fjármálaráðherra.

Ég vona svo sannarlega að hæstv. fjármálaráðherra hafi ekki talið mörgum þingmönnum í stjórnarliðinu trú um að þetta sé sá raunveruleiki sem menn búa við, því að það er náttúrlega gríðarlega mikilvægt að menn taki ekki ákvarðanir á röngum forsendum, ekki voru nú svo margir af stjórnarþingmönnum við umræðuna um Icesave svo þeir gætu ugglaust tekið eitthvað svona trúanlegt í stað þess að vera við umræðuna og hlusta á það sem þar kom fram.

Ég vil hins vegar ítreka það og tek undir með hv. þingmanni að það er náttúrlega alveg hreint með ólíkindum hvernig ríkisstjórnin gengur fram gagnvart elli- og örorkulífeyrisþegum. Ég verð að segja það, virðulegi forseti, var ekki nóg komið, þurfti núna við lokaafgreiðsluna, á síðustu mínútunum, að taka 35 milljónir til viðbótar af vasapeningum öryrkja og ellilífeyrisþega, klippa aðeins gat á vasana? Var ekki nóg komið? Ég bara spyr. Ég tel að það hafi verið miklu meira en nóg.

Ég verð að viðurkenna það, virðulegi forseti, að ef hæstv. fjármálaráðherra og hv. þm. Ögmundur Jónasson væru í stjórnarandstöðu og aðrir væru að gera þá hluti sem þeir eru að gera, mundi ég halda að þeir væru báðir komnir inn á lungnadeild á Landspítalanum, þeir væru búnir að tala svo mikið.