138. löggjafarþing — 58. fundur,  21. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[21:46]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Það er farið að nálgast lok þessarar umræðu um fjárlög. Þeir sem fylgst hafa með umræðunni sjá glöggt að hún hefur kannski ekki verið hörð allan tímann þó að margar ræður hafi verið fluttar. Ég hef velt því nokkuð fyrir mér, frú forseti, þann tíma sem ég hef verið hér á Alþingi hvort við þurfum ekki að endurskoða og endurhugsa þá aðferð sem við höfum til þess að færa fjárlög í gegnum þingið.

Ég hef t.d. velt því fyrir mér hvort við þurfum ekki að endurskoða 1. umr. málsins, sem er jú, eins og þekkt er, þannig að fjármálaráðherra mælir fyrir frumvarpinu, forustumenn flokkanna, í stjórnarandstöðu og stjórn, taka þátt í henni og síðan er umræðu lokið og málið fer til nefndar. Ég hef velt því fyrir mér hvort ekki væri skynsamlegt að tryggja það t.d. að fagráðherrar, ráðherrar hvers málaflokks, komi hér í þingið í 1. umr. og geri í stuttu máli grein fyrir því hvernig fjárlagafrumvarpið snertir þeirra málaflokk og svari fyrirspurnum þingmanna í ákveðinn tíma um sinn málaflokk. Ég held að það mundi dýpka umræðuna, gera hana markvissari og um leið stuðla að því að fjárlög verði vandaðri en nú er.

Ég tel jafnframt, frú forseti, að skoða ætti það að við nefndarvinnu, sérstaklega milli 1. og 2. umr., þar sem meginþungi nefndarvinnunnar liggur — ef ríkisstjórnin vill kalla fram breytingar á því frumvarpi sem hún sjálf hefur lagt fram eigi að breyta frá þeim sið sem nú er að á fund fjárlaganefndar mæti ráðuneytismenn og embættismenn úr ráðuneytunum og geri grein fyrir málaflokkum sínum og síðan komi einhver minnisblöð frá ríkisstjórninni um auknar fjárheimildir og/eða að fulltrúar frá ráðuneytunum mæta til þess að rökstyðja þær. Ég velti því fyrir mér hvort ekki sé betra að viðkomandi ráðherra mæti fyrir nefndina og geri grein fyrir ástæðu þess að lagt er til að aukið verði við fjárframlög til viðkomandi málaflokks umfram það sem lagt var fram í frumvarpinu þegar það kemur fyrst fram á haustmánuðum.

Ég held, frú forseti, að það ætti að skoða þessa hluti. Ég tel að reynslan hafi sýnt, sérstaklega núna, að fjárlagafrumvarpinu er í mjög mörgum þáttum ábótavant. Við erum ekki að vinna þetta eins vel og á að gera. Það dugar ekki fyrir okkur alþingismenn að benda á framkvæmdarvaldið og skammast yfir því þó að ég telji að sök þess í þeim málum sem við höfum verið að ræða hér, þ.e. fjárlög og skattafrumvörp, sé ansi mikil. Ég tel að ekki hafi verið unnið nægjanlega vel í þessum frumvörpum, þar eru gallar á sem hafa verið dregnir fram í dagsljósið og alveg örugglega fleiri gallar sem ekki hefur verið komið auga á af því að umræðan hefur verið takmörkuð. En sú ábyrgð hvílir á okkur þingmönnum og á löggjafarvaldinu að grípa til ráðstafana, breyta vinnulagi hér í þinginu þannig að líklegra verði að við búum til fjárlög sem bæði halda og eru skynsamleg. Þetta er um meðferðina á fjárlagafrumvarpinu hér í þinginu.

Ég vil líka aðeins víkja að því, frú forseti, hvernig við eigum að snúa okkur í því óskaplega erfiða verkefni að skera niður ríkisútgjöld. Það er nefnilega þannig með langflest verkefni sem ríkisvaldið sinnir að flestir góðir og sanngjarnir menn geta verið sammála um að þar sé á ferðinni um margt þörf og góð þjónusta sem æskilegt sé að borgararnir hafi aðgang að. Auðvitað eru þetta misskynsamleg verkefni en um flest þeirra erum við sátt. Það er pólitísk sátt um það í landinu að heilbrigðisþjónustan þurfi að vera þannig að allir hafi aðgengi að henni og hún standist samanburð við það besta sem gerist í löndunum í kringum okkur. Við viljum að hér sé öflugt menntakerfi sem er opið fyrir alla. Við viljum að hér sé öflugt félagsnet sem tryggir það að þeir sem þurfi á aðstoð að halda fái hana o.s.frv. Við viljum góðar samgöngur. Við viljum hreint og fagurt land og það kostar okkur peninga að fylgja því eftir. Við viljum að það séu góðir þjóðgarðar o.s.frv. Listinn er endalaus og þarfirnar eru með öðrum orðum endalausar.

Rekstur ríkisins hefur vaxið alveg gríðarlega á undanförnum árum og áratugum. Ég skal viðurkenna það, og hef oft gert það héðan úr þessum ræðustól, að þau mistök sem við, sem veittum ríkisstjórn stuðning frá árinu 2007, eftir kosningar, og fram til febrúarmánaðar 2009, gerðum voru þau að láta eftir og samþykkja þá gríðarlegu útgjaldaaukningu sem varð í ríkisstjórnartíð Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar í fjárlögunum sem gerð voru fyrir árið 2008. Það var brjálæðislegt hvernig ríkisútgjöldin jukust þá og höfðu verið að aukast á árunum þar áður.

Það sem við stöndum þá frammi fyrir núna er: Hvernig eigum við að vinda ofan af þessu? Ég tel, frú forseti, að eitt af því sem þurfi að gerast strax í janúar — og ég vil beina því til hæstv. fjármálaráðherra að skoða það að við fáum til okkar stórt alþjóðlegt ráðgjafarfyrirtæki, tengjum það við sambærilegt íslenskt fyrirtæki og fáum slíkan hóp, ásamt embættismönnum úr viðkomandi ráðuneytum, til að fara inn í hvert einasta ráðuneyti og undirstofnanir og skoða hvar við getum endurskipulagt frá grunni rekstur ríkisins. Smáskammtalækningar eins og þær sem við höfum verið að fara í, og eru greinilegar í frumvarpinu, munu ekki skila árangri. Ég efast um það, frú forseti, að okkur takist að halda þessi fjárlög, þ.e. útgjaldarammann, ég óttast það mjög að farið verði út fyrir. Það gerist og það verður vandi þangað til við förum í gegnum gagngerar breytingar á ríkisrekstrinum. Við þurfum að skoða heilu stofnanirnar og spyrja: Getum við unnið þá vinnu sem hér fer fram með því að dreifa því yfir á aðrar stofnanir? Getum við lagt viðkomandi stofnun niður o.s.frv.? Þetta eru hlutir sem við verðum að skoða og það verður ekki gert á einum eða tveimur mánuðum. Það verður heldur ekki gert með þeim mannafla sem er í ráðuneytunum. Við þurfum að kalla fleiri að og þess vegna tel ég rétt að fá til þess erlenda aðila sem hafa yfirgripsmikla reynslu af slíkum störfum hvaðanæva í heiminum. Slíkar ráðgjafarþjónustur eru margar og um leið þarf að tengja þær við íslenskar ráðgjafarstofur. Það þarf að fara strax í þessa vinnu í janúar og gefa sér eina sex til sjö mánuði til að fara í gegnum allan ríkisreksturinn með slíkum hætti til þess að geta gripið utan um það hvernig við eigum að lækka kostnað ríkisins með afgerandi hætti fyrir næstu fjárlög.

Ef við gerum það ekki, frú forseti, ef við náum ekki árangri í því að skera niður ríkisútgjöldin, án þess þó að höggva niður alla þjónustuna, verður fjárlagavinnan fyrir árið 2011 alveg óskaplega erfið. Þá munum við standa frammi fyrir því að skattahækkanir þær sem ríkisstjórnin er nú að leggja á landsmenn og fyrirtækin í landinu munu hafa valdið því að samdráttur verður meiri en orðið hefði og er þá vart á bætandi vegna samdráttar sem verður vegna hruns bankanna og vegna þess að það er þó þessi samdráttur í ríkisútgjöldunum. Það verkefni sem við erum að fást við fyrir næsta ár verður ekki leyst, frú forseti, með hærri sköttum, það verður ekki leyst þannig. Eina leiðin sem við höfum á næsta ári er að draga meira úr útgjöldunum og það verður ekki gert með smáskammtalækningum enn og aftur. Ég skora því á hæstv. fjármálaráðherra að hefja strax undirbúning fyrir slíka vinnu og ráðast í það þannig að við náum einhverjum árangri sem við getum lagt til grundvallar fyrir næstu fjárlög.

Ég vil enn á ný, frú forseti, taka það fram að sú efnahagsstefna sem birtist í fjárlagafrumvarpinu sem nú liggur fyrir er að mínu mati kolröng. Hún á ekki við okkar aðstæður og hún vinnur gegn því markmiði sem við eigum öll að geta verið sammála um, og erum öll sammála um, að vinna okkur sem hraðast út úr kreppunni. Sú efnahagsstefna sem birtist í fjárlagafrumvarpinu byggist á þeirri hugsun að það sé í sjálfu sér ekki svo slæmt að hækka skatta. Við höfum heyrt það, frú forseti, hér í umræðunni, við höfum heyrt það frá hv. stjórnarþingmönnum æ ofan í æ, að það sé nauðsynlegt að hækka skatta vegna þess að menn séu að leita að einhvers konar félagslegum jöfnuði með skattahækkunum. Það kann vel að vera að vel sé hægt að rökstyðja slíka pólitíska hugsun. Ég er ekki sammála þeirri nálgun. En ég lít svo á að við þær aðstæður sem nú eru sé fyrsta verkefnið að bjarga ríkissjóði og koma í veg fyrir auknar álögur á heimilin á Íslandi og atvinnureksturinn. Auknar álögur gera ekkert annað en að draga úr umsvifum í hagkerfinu.

Frú forseti. Ef við ætlum í alvörunni að ná árangri á næsta ári í næstu fjárlögum, sem við verðum að ná, með því að skera niður útgjöld ríkisins, stöndum við frammi fyrir því að opinberir starfsmenn munu þurfa að fá vinnu á almenna markaðnum, öðruvísi verður þetta ekki gert. Þá verður að vera rými á almenna markaðnum fyrir það fólk til að fá vinnu. Nú er atvinnuleysi á almenna markaðnum og skattahækkanirnar sem nú ganga yfir okkur, eftir að þessi frumvörp hafa verið samþykkt hér í þinginu, munu gera það að verkum, vegna þess að skattarnir draga úr eftirspurn í hagkerfinu, að erfiðara verður fyrir fyrirtækin í landinu að ráðast í nýsköpun, að fjölga hjá sér starfsmönnum vegna þess að eftirspurnin í hagkerfinu er minni. Minni eftirspurn þýðir bara minni eftirspurn eftir vöru og þjónustu. Minni eftirspurn eftir vöru og þjónustu þýðir færri störf og við verðum, frú forseti, að búa til störf því að hvernig ætlum við að taka á móti því fólki sem óumflýjanlega mun missa störf á næsta ári ef tekjurnar sem við ætlum að fá inn í ríkissjóð munu ekki vera nægjanlegar fyrir næsta ár til þess að ná þeim markmiðum sem við setjum okkur í ríkissjóðsmálum. Ég leyfi mér að fullyrða, frú forseti, að það er mikil hætta á því að svo verði, að við verðum að ganga lengra í niðurskurði en menn halda að þeir þurfi að gera nú í dag. Þessi er vandinn, frú forseti, sem við þurfum að leysa á því ári sem fram undan er og hann verður stærri en sá vandi sem við höfum verið að leysa í því fjárlagafrumvarpi sem nú liggur fyrir, hann verður stærri og meiri.

Því miður virðist ríkisstjórnin ekki fær um að grípa til þeirra aðgerða sem þó eru mögulegar. Það virðist t.d. skipta miklu máli hverjir leggja slíkar aðgerðir til. Menn geta vart hugsað sér að grípa til aðgerða af því að hugmyndin að þeim komi frá stjórnarandstöðunni. Margir þingmenn hafa t.d. sagt það í upphafi máls síns að það sé algjörlega ómögulegt að fara þá leið sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt til varðandi það að kalla til ríkisins þá skatta sem ríkið sannarlega á í séreignarsjóðunum. En þegar ræðurnar ganga fram og umræðan fer að snúast að framtíðinni segja hinir sömu þingmenn, sem hafa sagt og lýst því yfir í ræðum sínum að það sé prinsippatriði að ekki sé hægt að fara umrædda leið: En að sjálfsögðu má vel skoða slíka leið á næsta ári eða þarnæsta ári. Þetta hefur heyrst hjá mörgum hv. þingmönnum. Þetta er einmitt vandinn. Málið snýr einmitt hinsegin, við hefðum þurft að byrja á þessu núna þegar kreppan er einna erfiðust fyrir okkur, leggja ekki skatta á heimilin og fyrirtækin í landinu, auka möguleikana á því að skattstofnarnir braggist og þeir fari að skila meiru. Í framhaldinu geta þeir sem til þess hafa þingstyrk og pólitískan vilja gert þær breytingar sem þeir telja að séu skynsamlegar til að kalla fram eitthvert það réttlæti sem þeir hafa skilgreint sem svo. Það er þá sem menn geta unnið slíka vinnu og gert það á einu, tveimur og jafnvel þremur árum og vandað sig og gert þetta með sama hætti og aðrar þjóðir gera.

Villuhættan í þessu öllu saman og hættan á því að samdráttur verði í efnahagslífinu vegna skattafrumvarpa ríkisstjórnarinnar, vegna þess fjárlagafrumvarps sem hér er til umræðu, er mjög mikil. Það er mjög mikil hætta þessu samfara. Við hljótum því að vonast til þess að sú tillaga sem við sjálfstæðismenn flytjum og er hér í þessu fjárlagafrumvarpi, um að sú leið verði farin að hið opinbera nýti þá skattpeninga sem það á í séreignarsjóðunum og að flýtt verði fyrir framkvæmdum (Forseti hringir.) — við hljótum að vonast til þess, þó á síðustu stundu verði, að ríkisstjórnin (Forseti hringir.) sjái að sér og fari þá leið.