138. löggjafarþing — 58. fundur,  21. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[22:01]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Það er í raun ekki hægt annað en að setja það fjárlagafrumvarp sem við ræðum í samhengi við hið margumrædda Icesave-mál vegna þess að það er ekki að ástæðulausu að svo mikill tími hefur farið í það mál. Í rauninni virðast flest önnur mál vera tiltölulega einföld og lítil í sniðum í samanburði. Ýmsu hefur verið haldið fram um þessar svokölluðu skuldbindingar sem eru að sjálfsögðu ekki raunverulegar skuldbindingar heldur kröfur. Ég ætla ekki að verja tíma í að fara yfir það allt saman en þó er rétt að geta þess áður en ég fjalla um það hvernig þetta tengist fjárlagafrumvarpinu að nú hefur fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar útskýrt með mjög greinargóðum og ítarlegum hætti að það sé ekkert hæft í því sem sú ríkisstjórn sem nú situr hefur fullyrt þess efnis að þetta mál hafi verið frágengið á einhvern hátt þegar hún kom að því. (Gripið fram í: Það er athyglisvert.) Það er mjög athyglisvert. Jafnframt birtist í dag skýrsla ensku lögfræðistofunnar Mishcon de Reya sem fer ítarlega yfir þessa Icesave-samninga og útlistar það hversu slæmir þeir eru á allan hátt, vextirnir fráleitlega háir og ósanngirnin alls ráðandi. Því er mikið til þess vinnandi að berjast fyrir hagsmunum Íslands á þeim vettvangi og reyna hvað við getum til að koma í veg fyrir tjónið. En hversu mikið er tjónið?

Besta leiðin til að gera sér grein fyrir því er kannski að setja það í samhengi við aðrar stærðir, önnur útgjöld ríkisins og það er einmitt það sem við erum að gera þegar við ræðum fjárlagafrumvarpið. Ég ætla að byrja á að setja tekjuhlutann í dálítið samhengi við Icesave-kröfurnar því að hægt væri að safna saman mjög mörgum af tekjuliðum frumvarpsins og það dygði samt ekki fyrir vöxtunum, við verðum að hafa í huga að vextirnir munu alltaf lenda á íslenskum skattgreiðendum og þá skiptir engu máli hvað fæst upp í þrotabúið.

Áður hefur verið bent á að það þurfi tekjuskatt 79 þúsund Íslendinga bara til að borga þessa vexti ef við reiknum ekki með neinum margfeldisáhrifum af því að allur þessi peningur fer út úr hagkerfinu. Ef við ætluðum að reikna með margfeldisáhrifum mætti auðveldlega tvöfalda og þá yrði þetta tekjuskattur stórs hluta Íslendinga.

En lítum á aðrar tekjur. Ef við tækjum tekjuskatt lögaðila, þ.e. fyrirtækja, erfðafjárskattinn, stimpilgjöldin, vörugjöld af innfluttum vörum, tolla og aðflutningsgjöld, bifreiðagjöld, ýmis leyfis- og skráningargjöld, veiðigjald fyrir veiðiheimildir, sektir lögreglunnar, gjöld fyrir læknishjálp, skólagjöld og alla sölu á eignum íslenska ríkisins sem áætluð er á næsta ári, þá dygði það ekki fyrir nema svona tveimur þriðju af vaxtagreiðslunum. En hvað yrði ef við setjum þetta í samhengi við útgjöldin? Nú ætla ég ekki að skoða þetta út frá því sem verið er að spara hér og þar, því að þó að þær upphæðir hafi oft og tíðum afar mikið að segja liðu yfirleitt ekki nema nokkrir klukkutímar á vöxtum.

En byrjum á fyrsta lið, æðstu stjórn ríkisins, embætti forseta Íslands. Þeir eru ýmsir sem hafa haldið því fram að spara mætti fyrir íslenska ríkið með því að leggja niður forsetaembættið og eflaust hníga einhver rök að því. En hversu mikið mætti spara ef við hættum einfaldlega rekstri þessa embættis? Það væru 186,7 millj. kr. Það er allur rekstur forsetaembættisins. En ef við gerðum þetta, legðum niður forsetaembættið til að spara og segðum mönnum þar upp og gerðum ráð fyrir að þeir fengju vinnu annars staðar og færu ekki á atvinnuleysisbætur, forsetinn yrði ráðinn til starfa annars staðar og starfsmenn hans og þar fram eftir götunum, þá mundi það spara okkur nóg til að eiga fyrir, ja ekki tveggja daga vöxtum af Icesave, þ.e. ef við legðum niður íslenska forsetaembættið.

Hvað með rannsóknarnefndina sem nú rannsakar fall íslensku bankanna og efnahagshrunið, ef við hefðum sleppt þeirri vinnu? Hún kostar sitt. Hvað hefði fengist með því að sleppa að rannsaka fall bankanna? Það eru eins dags vextir. Ef við legðum niður Hæstarétt er það rúmlega dagur í vextina af Icesave.

Færum okkur þá yfir í forsætisráðuneytið. Þar undir eru ýmis verkefni, t.d. Vesturfarasetrið á Hofsósi sem hefur haft töluvert að segja um samskipti við Ameríkana og Kanadamenn, sérstaklega af íslensku bergi brotnu. Með því að leggja það niður, sem sé hætta að borga því nokkurn skapaðan hlut, mætti spara fyrir sex klukkutímum.

Förum yfir í menntamálaráðuneyti. Þar er Háskóli Íslands ofarlega á blaði. Hvað ef við lokuðum Háskóla Íslands, hættum starfsemi hans? Og við gerðum jafnframt ráð fyrir að allt fólkið þar fengi vinnu annars staðar svo að við þyrftum ekki að hafa áhyggjur af því að borga því atvinnuleysisbætur eða neitt slíkt. Ef við mundum einfaldlega hætta að reka Háskóla Íslands og lokuðum honum ættum við reyndar fyrir þriggja mánaða vöxtum af Icesave. Það mundi muna dálítið um það en þó náttúrlega ekki nema fjórðung úr ári.

Ef við færum í Landbúnaðarháskólann hefði það lítið að segja. Við gætum lokað honum en fengjum ekki nema fimm daga. Við gætum átt fyrir fimm dögum og ef við lokuðum líka Háskólanum á Hólum mundu tveir og hálfur dagur bætast við, þannig að þessir tveir skólar saman mundu nægja fyrir viku af vaxtagreiðslum. Ef við lokuðum Bifröst væru það þrír dagar í viðbót.

En hvað með Reykjavíkurakademíuna? Einhvern tíma var sagt að ekki gætu allir unnið í Reykjavíkurakademíunni þegar reynt var að útskýra muninn á stöðu landsbyggðar og höfuðborgar. En ef við lokum Reykjavíkurakademíunni, sem ég er alls ekki að leggja til að verði gert, fengjust þar peningar upp í þrjá og hálfan klukkutíma af vaxtakostnaði af Icesave.

Menntaskólinn í Reykjavík hefur átt í dálitlu basli vegna þess að þar skortir fjármagn. Skólinn hefur sparað hygg ég áratugum saman. Þar hefur verið rekin mjög aðhaldssöm stefna í fjármálum en er farin að taka sinn toll. Ef við legðum niður Menntaskólann í Reykjavík, sem sumir hafa fært rök fyrir að sé ein elsta menntastofnun í heimi, gætum við haft þar pening fyrir fjögurra daga vöxtum.

Við flettum áfram og lítum á kannski einn eða tvo framhaldsskóla í viðbót, Menntaskóla Borgarfjarðar, einn dagur þar, og framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð, ef við legðum hann niður hefðum við fyrir fimm klukkutímum. Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra gæti svo fylgt í kjölfarið og tryggt okkur um 19 klukkustundir af vaxtagreiðslum og ef við förum í símenntunina þá er hér Símenntunarstöð Eyjafjarðar, fjórir klukkutímar þar, Þekkingarsetur Þingeyinga, sjö tímar, og hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum eru fjórir klukkutímar ef við legðum hana niður og hættum að spá í símenntun á Suðurnesjum.

Háskólasetur Vestfjarða er mjög áhugavert fyrirbæri. Ég hef nokkrum sinnum komið þangað og sú starfsemi skiptir alveg sköpum fyrir Ísafjörð og ótrúlega mikið sem hefur sprottið upp af starfsemi háskólasetursins. Það hefur gefið því byggðarlagi mjög mikið, og skilaði örugglega á endanum miklu meiri tekjum en nemur þeim kostnaði sem í það færi. En ef við lítum fram hjá því, sleppum slíkri langtímahugsun sem er í samræmi við stefnu eða a.m.k. hugarfar þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr, þá gætum við lagt niður Háskólasetur Vestfjarða og náð þar í klukkutíma og 40 mínútur af Icesave-vöxtunum. Námsgagnastofnun, þar eru reyndar heilir fjórir dagar.

Þjóðminjasafnið. Það hefur verið til umræðu að Þjóðminjasafn Íslands hafi ekki efni á að viðhalda þeim torfbæjum sem eftir eru, þó að þeir séu ekki margir, á sama tíma og menn velta því fyrir sér að reyna að koma íslenska torfbænum á heimsminjaskrá. Þjóðminjasafnið hefur ekki efni á að viðhalda þeim og sumir sem telja jafnvel að forgangsraða þurfi með þeim hætti að nokkrum bæjum verði fórnað. En ef við fórnum þeim öllum og hættum að spá í þessa gömlu torfbæi og önnur gömul hús á vegum Þjóðminjasafnsins og látum þau grotna niður þá getum við náð í 15 klukkutíma og 30 mínútur af vaxtagreiðslum. Ef við lokum héraðsskjalasöfnunum fáum við þrjá tíma og tíu mínútur í viðbót. Svo er það Þjóðmenningarhúsið sem hæstv. félagsmálaráðherra kallaði monthús, það heyrðist mér helsta framlag hans til þess sem mætti skera niður þegar hann í frægu útvarpsviðtali gagnrýndi mjög ríkisstjórnina sem hann situr í fyrir það hvernig hún hefði staðið að málum, m.a. er varðar niðurskurðinn. En ef við lokum því húsi sem hæstv. félagsmálaráðherra, Árni Páll Árnason, kallar monthúsið þá er hægt að standa undir eins dags vaxtagreiðslum af Icesave. Og ef við lokum Listasafni Íslands líka þá er meira en dagur þar, það er dagur og sex klukkutímar því til viðbótar.

Náttúruminjasafn Íslands hefur verið á hrakhólum áratugum saman svo kannski teldu menn best að loka því og ná þar með reyndar ekki nema í fjóra klukkutíma og 30 mínútur. En hvað um það, bætum þá Nýlistasafninu við, það skilar reyndar ekki miklu, ekki verður mikið sett í Nýlistasafnið því að við höfum ekki nema klukkutíma og 46 mínútur með því að hætta alveg að spá í þessa nýlist.

Byggðasöfnin skipta býsna miklu máli í mörgum héruðum og eru grundvallaratriði í íslenskri ferðaþjónustu sem skiptir óhemjumáli við gjaldeyrisöflun til framtíðar, en af því að við erum ekki að hugsa svo mikið til framtíðar þessa dagana og mundum ákveða að loka byggðasöfnunum eða hætta að styrkja þau mætti ná í sex tíma og 12 mínútur af Icesave-vöxtunum.

Þá er það Ríkisútvarpið, það munar reyndar um það, einn mánuður þar. Þjóðleikhúsið, ef við lokum því og segjum öllum upp, hvort heldur sem er leikurum, ljósamönnum eða öðrum og hættum leiksýningum þá eru þar sex dagar og 11 klukkustundir.

Húsafriðunarnefnd. Ég hef fjallað töluvert um þann málaflokk á öðrum vettvangi og mikilvægi þess að viðhalda gömlum húsum og efnahagsleg áhrif þess sem eru yfirleitt á þann veg að það skapar meiri tekjur en gjöld. Ef við hættum hins vegar að spá í það þá eru þar 11 klukkustundir. Kvikmyndamiðstöð Íslands er annað sem hefur skapað miklu meiri tekjur en nemur því sem þangað er varið. Það eru fjórir dagar. Svo er Barnamenningarsjóður, ef við leggjum hann niður náum við þar í 56 mínútur, Listahátíð í Reykjavík, sjö klukkutímar og 12 mínútur.

Fræðistörfin þurfa kannski að taka sinn skerf. Ef við leggjum niður Snorrastofu — þó að mjög mikill áhugi hafi reyndar verið fyrir Snorra Sturlusyni að undanförnu og mikil vinna unnin í Snorrastofu sem birtist m.a. í nýrri bók Óskars Guðmundssonar um Snorra Sturluson, sem ég held að hafi að einhverju leyti verið skrifuð í Snorrastofu — þá eru þar þrír klukkutímar og 50 mínútur.

Norræn samvinna. Reyndar skilst mér að þessi undirgefni í Icesave-málinu gangi út á það að auka alþjóðasamvinnu en Norðurlöndin hafa að sögn hæstv. forsætisráðherra ekki stutt okkur sérlega vel í því máli þannig að ef við hættum að fást við norræna samvinnu þá eru þar reyndar ekki nema innan við tveir klukkutímar sem við fáum upp í vextina þar.

Æskulýðsmálin. Ungmennafélag Íslands hefur verið tengt Framsóknarflokknum í gegnum tíðina þannig að kannski vill ríkisstjórnin bara leggja það af og ná þannig í eins dags vexti. Æskulýðsmiðstöð KFUM í Vatnaskógi, þar eru 48 mínútur og KFUM og KFUK í heild, landssamböndin, þar eru reyndar sex klukkutímar og 42 mínútur.

Íþróttamálin. Ég ætla að renna hratt yfir þann lista, en ég virðist ekki hafa tíma til þess, frú forseti, því ég er ekki kominn nema rétt inn í fjárlagafrumvarpið og búinn að merkja við fjöldann allan af liðum sem þyrfti að leggja af til að eiga fyrir vöxtunum af Icesave en ég næ ekki að fara í gegnum það.

Ef ég hefði hins vegar einungis fjallað um niðurskurðartillögurnar í stað þess að tala um hvað fengist fyrir að loka heilu stofnunum — og nú ítreka ég að ég er heldur betur ekki að leggja til að slíkt sé gert — en ef aðeins væri spáð í niðurskurðinn sem víða tekur mjög á, til að mynda voru það 50 millj. kr. hjá lögreglunni á sínum tíma sem hafði ótrúlega mikið að segja fyrir starfsemi lögreglunnar og gerðu mönnum þar erfitt fyrir, þá værum við ekki að tala um einhverja daga heldur mínútur og klukkutíma af vöxtunum af Icesave. Þar af leiðandi, virðulegur forseti, er varla óeðlilegt að við leggjum áherslu á það mál og reynum betur til þess að ná viðunandi niðurstöðu því þar er allt annað undir líka.