138. löggjafarþing — 59. fundur,  22. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[09:33]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Hér er gerð tilraun til að færa til Fornleifaverndar mörg útgjöld sem fara til alls konar áhugamannafélaga og fyrirtækja úti um allt land í þann farveg að þau verði sett undir Þjóðminjasafn eða einhvers konar faglega úthlutun. Þetta er enn eitt dæmið um alla þessa safnliði sem er verið að samþykkja út og suður í frumvarpinu þar sem meðferð fjárins er ekki nægilega vel fylgt eftir. Menn vita ekki hvað er gert við það, menn vita ekki hvort verkefnin eru kláruð. Við munum beita okkur fyrir því að allir þessir safnliðir, svo sem kostur er, verði einfaldlega færðir undir stjórn faglegra sjóða, hvort sem þeir eru í ráðuneytum eða á landsbyggðinni og teljum það farsælli og betri meðferð skattfjár almennings í landinu.