138. löggjafarþing — 59. fundur,  22. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[09:58]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson tók fyrr á árinu ákvörðun um að samþykkja að flytja hjúkrunarheimili frá heilbrigðisráðuneytinu yfir til félagsmálaráðuneytisins. Það var mjög röng ákvörðun. Sú tillaga sem við greiðum atkvæði um núna gengur út á það að halda hjúkrunarrýmunum áfram hjá heilbrigðisráðuneytinu. Það er um að gera að segja já við þessari tillögu. Það er mjög rangt að flytja hjúkrunarrýmin, þau eru í eðli sínu heilbrigðisþjónusta en ekki búsetuúrræði. Meiri hlutinn vill flytja 70% af rýmunum núna yfir til félagsmálaráðuneytisins, ætlaði að flytja þau öll en Vinstri grænir gátu staðið aðeins í ístaðinu. Öll rýmin verða flutt síðar, því miður.

Ég er algjörlega ósammála því sem meiri hlutinn ætlar að gera hérna þannig að ég styð þessa tillögu um að við höldum hjúkrunarrýmunum áfram undir hatti heilbrigðisráðuneytisins, það er þar sem þau eiga heim. Ég segi já.