138. löggjafarþing — 59. fundur,  22. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[10:02]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Frú forseti. Tillagan sem við erum að greiða atkvæði um núna gengur út á það að færa ákveðin hjúkrunarheimili ekki til félagsmálaráðuneytisins eins og meiri hlutinn ætlaði að gera. Þetta er afrakstur af toginu á milli Vinstri grænna og Samfylkingarinnar og Vinstri grænir náðu því núna að halda um sinn nokkrum hjúkrunarheimilum eftir og færa þau ekki til félagsmálaráðuneytisins.

Það á hins vegar að færa þau víða og til að setja þetta í eitthvert samhengi er rétt að geta þess að í landinu eru 2.633 hjúkrunarrými. Það á að færa 1.800 þeirra yfir til félagsmálaráðuneytisins. Upphæðin sem fylgir er u.þ.b. 13 milljarðar kr. Þetta eru geysilegir fjármunir sem fara núna í rangt ráðuneyti og það er vegna þess að hjúkrunarheimilin byggjast ekki aðallega á félagslegum úrræðum. Þetta er meira og minna heilbrigðisþjónusta. Það hljóta allir að sjá það sem vilja opna augun. Vinstri grænir reyndu að stoppa þetta og við heyrðum í hæstv. heilbrigðisráðherra Álfheiði Ingadóttur í umræðunni sem er öllum þessum málum kunn. Þá sagði hæstv. ráðherra að hún hefði mjög miklar efasemdir um þetta (Forseti hringir.) og kallaði til þingsins. Nú er þingið að gera þau mistök að halda einungis hluta eftir. Það er þó gott að við höldum þessu eftir í smátíma þannig að ég segi já við þessari tillögu en samt er hér að verða stórslys. (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti biðst velvirðingar á því að klukkan virkar ekki í borðinu, en tíminn er mældur á forsetastóli.)