138. löggjafarþing — 59. fundur,  22. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[10:20]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hér er um það að ræða að nokkur heimili eiga að vera áfram á þeim stað þar sem heilbrigðisstofnanir eiga að vera. Það er rétt að árétta að það kom skýrt fram hjá aðilum sem reka hjúkrunarheimili að tilfærslan yfir í félags- og tryggingamálaráðuneytið gæfi mjög skýr skilaboð um að minnka ætti heilbrigðisþjónustu á hjúkrunarheimilunum. (Gripið fram í.) Þetta kom mjög skýrt fram. Á sama hátt, af því að hér nefna menn að samtök eldri borgara hafi verið inni í þessu, kom líka skýrt fram að þeir höfðu aldrei séð þessa tillögu þegar þetta var kynnt fyrir þeim á föstudagsmorguninn. Sömuleiðis kom það fram á fundum sem við höfum átt við forustumenn þeirra.

Það kom líka fram hjá hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra í umræðunni í þinginu að það væri svo mikið að gera hjá félags- og tryggingamálaráðuneytinu að það þyrfti að kalla til sjálfboðaliða til að hjálpa til við lagafrumvörp og annað slíkt. Samt sem áður ætlar hæstv. (Forseti hringir.) félags- og tryggingamálaráðherra að seilast í heilbrigðisstofnanir sem eiga að vera í allt öðru ráðuneyti.