138. löggjafarþing — 59. fundur,  22. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[10:28]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Frú forseti. Eins og áðan erum við að greiða atkvæði um jákvæða hluti. Hér er verið að bæta Jöfnunarsjóði sveitarfélaga 1.200 millj. kr. sem er trúlega vegna þess að tryggingagjaldið sem mun leggjast á sveitarfélögin mun hækka útgjöld þeirra um allt að 2 milljarða kr. Hér kemur hluti til baka frá meiri hluta fjárlaganefndar sem er auðvitað til bóta en það er óljóst hvort það sem vantar upp á skili sér, en restin ku eiga að koma vegna heimildar á úttekt séreignarsparnaðar og þar af leiðandi í útsvari. Áhugavert er að bera saman nálgun sveitarfélaga og ríkisins á að laga útgjöld sín að tekjum allt frá hruninu 2008. Sveitarfélögin hafa ekki stórhækkað skatta í fjárhagsáætlunargerð sinni vegna 2010 ólíkt ríkisvaldinu sem á að hækka hér um 50 milljarða kr. Það er mikilvægt að sveitarfélögin haldi þeim tekjum sem þau afla en ríkisvaldið seilist ekki í þann vasa eins og í vasa skattborgaranna, þ.e. (Forseti hringir.) í opinbert fé.