138. löggjafarþing — 59. fundur,  22. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[10:30]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Með þessu framlagi upp á 1.200 millj. kr. sem rennur í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga til endurgreiðslu á kostnaðarauka sveitarfélaga vegna hækkunar tryggingagjalds nú um áramótin er að fullu staðið við fyrirheit sem sveitarfélögunum var gefið þar um á haustmánuðum. Sömuleiðis renna 30 millj. kr. til varasjóðs íbúðalána og þegar hafður er í huga tekjuauki sveitarfélaganna vegna útgreiðslu séreignarsparnaðar, sem verður væntanlega um 2,5 milljarðar kr. á næsta ári og enn meiri á þessu ári, er útkoma sveitarfélaganna að mínu mati úr þessum samskiptum við ríkið mjög góð. Ríkið hefur staðið við og efnt t.d. samning um greiðslu húsaleigubóta og borgað upp skuldahalann sem myndaðist á þeim lið í tíð fyrri ríkisstjórnar (Gripið fram í.) þar sem alls ekki var veitt nægt fjármagn til að kosta þátttöku ríkisins í húsaleigubótum á árunum 2008 og 2009. Samskipti ríkis og sveitarfélaga hvað tekjumál varðar eru komin í annað og betra horf og ég trúi því að um það ríki (Forseti hringir.) almenn sátt að ríkið standi við sinn hlut.