138. löggjafarþing — 59. fundur,  22. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[10:37]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Hér er verið að afhenda Samtökum iðnaðarins 420 millj. kr. úr ríkissjóði. Þetta fé kemur inn í svokölluðu iðnaðarmálagjaldi. Sjálfum er mér óskiljanlegt hvers vegna ríkið hefur tekið að sér að innheimta þessa peninga og afhenda þá svo Samtökum iðnaðarins. Þetta eru lobbýistar, þetta eru samtök sem ganga hart fram í því að ná sínu fram, bæði í gegnum aðgengi að þingmönnum og ráðherrum sem og í gegnum auglýsingar. Niðurstaðan er sú að hér höfum við samtök sem hafa barist fyrir því að náttúra Íslands er stórsköðuð, við höfum samtök sem berjast fyrir því að Coca Cola og sælgæti sé flokkað sem matvæli. Það er alveg óþarfi að veita almannafé í slíka áróðursstarfsemi og ég tel að það ætti að samþykkja að fella þessi útgjöld niður.