138. löggjafarþing — 59. fundur,  22. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[10:57]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Rétt er það að bæjarstjórn Álftaness datt í djúpu laugina í nýju sundlauginni sinni og kemst ekki almennilega upp úr. Mér sýnist ríkisstjórnin vera að detta ofan í þá djúpu laug sem kannski verður niðri við höfn. Mér þykir sjálfum ekki vera heil brú í mörgum liðum þessa frumvarps. Ég held að hægt hefði verið að gera þetta miklu betur. Það hefði verið hægt að ná í tekjur fyrir ríkissjóð með auðveldari hætti fyrir almenning í landinu og það hefði verið hægt að útdeila fjármununum á faglegri máta en gert er. Þess vegna sit ég hjá við atkvæðagreiðslu um þetta frumvarp og ég vona svo innilega að við fjárlög næsta árs muni fjárlaganefnd og þingheimur allur taka sig saman um að fara betur með fé almennings.