138. löggjafarþing — 59. fundur,  22. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[11:00]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Það fjárlagafrumvarp sem við erum hér að afgreiða er eins og illa skipulögð óvissuferð inn í næsta ár. Þegar fjárlagafrumvarpið kom fram á þinginu var það algjörlega vanbúið til umræðu og tekjuhlið þess öll í fullkomnu uppnámi. Ríkisstjórnin sem er að fá þetta fjárlagafrumvarp afgreitt fór í gegnum kosningar og þagði þunnu hljóði um öll skattahækkunaráform sín. (Gripið fram í: Nei!) Hún hefur núna komið [Háreysti í þingsal.] harkalega í bakið á bæði atvinnurekendum og launþegum þannig að (Forseti hringir.) samtök bæði atvinnurekenda og launþega kvarta núna sáran undan því sem gert hefur verið. Því miður mun ríkisstjórninni ekki takast að skila ríkissjóði með þeim mikla halla sem þó er kynntur hér vegna þess að það stefnir allt í að hann verði meiri.

Ríkisstjórnina skortir kjark og áræði til að taka erfiðar ákvarðanir. Þetta eru tómar einskiptisaðgerðir (Gripið fram í: Hvaða …) sem engu skila til lengri tíma, öllu er slegið á frest sem skiptir máli og við þurfum aldeilis að bretta upp hendur hér — [Hlátrasköll í þingsal.] bretta upp ermar hér á næsta ári (Forseti hringir.) til að koma hlutunum í rétt horf. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)