138. löggjafarþing — 59. fundur,  22. des. 2009.

eignarhlutur ríkisins í Íslandsbanka hf., Arion banka hf. og NBI hf.

336. mál
[11:05]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Hér eru greidd atkvæði um mál sem er kannski mjög einkennandi fyrir flumbrugang fjármálaráðuneytisins við gerð fjárlaga. Hér er verið að koma inn heimild sem að sjálfsögðu átti að koma fram í fjáraukalögum þessa árs. Mér er til efs að þessi gjörningur standist stjórnarskrá lýðveldisins og við framsóknarmenn munum sitja hjá við þessa afgreiðslu.

Eftir stendur að ríkisstjórnin hefur selt ríkisbankana á ný til einhverra óskilgreindra aðila og reynir nú með einhverjum óskilgreindum hætti að segja landsmönnum að hér sé ekki um sölu að ræða heldur einfaldlega yfirfærslu á eignum til einhverra óskilgreindra kröfuhafa.