138. löggjafarþing — 60. fundur,  22. des. 2009.

breyting á heimildarlögum um stóriðju vegna skattgreiðslna 2010, 2011 og 2012 o.fl.

318. mál
[11:56]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hér er eitt undarlegasta frumvarp sem ég hef séð og yfirleitt heyrt af. (Gripið fram í.) Ég er svo sem hrærður yfir samfélagslegri ábyrgð álfyrirtækjanna sem ætla að aðstoða okkur í því að komast yfir þennan hjalla. Einhvern veginn hef ég ekki fulla trú á þessu en þetta er fallegt af þeim.

En mig langar að spyrja hv. þingmann sem mælir með þessu: Hvað gerist ef þessir góðgerðarmenn okkar skyldu verða gjaldþrota einhvern tíma á tímabilinu, segjum bara næsta haust? Það hefur komið fyrir úti í heimi að stórfyrirtæki hafa orðið gjaldþrota. Hvað gerist þá þegar þau eru búin að borga skattinn og verða svo gjaldþrota, þ.e. skattstofninn hverfur? Hvað ætlum við þá að gera? Á þá að endurgreiða þrotabúinu eða hvernig lítur þetta út? Þetta er alveg með ólíkindum og mig langar til að vita hvort menn ætli líka að semja við tekjuskattsgreiðendur og þá sem borga bensíngjald og svoleiðis um að þeir borgi pínulítið fyrir fram af samfélagslegri ábyrgð?