138. löggjafarþing — 60. fundur,  22. des. 2009.

breyting á heimildarlögum um stóriðju vegna skattgreiðslna 2010, 2011 og 2012 o.fl.

318. mál
[12:09]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er að sjálfsögðu ekkert óeðlilegt við að notuð sé uppgjörsmynt fyrirtækjanna þegar útreikningar fara fram eins og verður gert í þessu tilviki. Það er mikilvægt að það liggi fyrir að hér er um að ræða hluta af stærra samkomulagi sem óhjákvæmilegt var að ná fram ef ætti að koma við þeirri skattlagningu á stórnotendur orku sem er orðin að veruleika með lögum frá Alþingi. Þetta tengist því máli og er hluti af því og þar er um hærri fjárhæðir að ræða sem eru beinar tekjur ríkisins á þessum næstu þremur árum. Það munar að sjálfsögðu um það við okkar aðstæður að þar greiða stórnotendur raforku um 1.600 millj. kr. á ári í þrjú ár í formi 0,12 kr. á kílóvattstund af keyptri raforku. Þetta var svo viðbót við þetta samkomulag.

Það má ýmislegt um þetta segja og er engin óskaniðurstaða en þannig leit pakkinn út í heild sinni að lokum og að sjálfsögðu er hagstætt fyrir ríkissjóð að fá þessar tekjur inn á næstu þremur árum á þessum kjörum. (VigH: Taka meiri lán.)