138. löggjafarþing — 61. fundur,  22. des. 2009.

jólakveðjur.

[12:26]
Horfa

Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Áður en ég slít þingfundi vil ég færa alþingismönnum, starfsfólki þingsins og landsmönnum öllum bestu óskir um gleðilega og friðsæla jólahátíð.

Þingfundir verða milli jóla og nýárs til þess að afgreiða stórt mál sem miklar deilur hafa staðið um. Fundir hefjast fjórða í jólum, mánudaginn 28. desember, samkvæmt dagskrá sem send verður út.

Ég veit að jólahlé er sérstaklega kærkomið að þessu sinni þótt stutt sé, því að annir í þinginu hafa verið meiri nú en mjög lengi áður. Þær hafa lagst á alþingismenn og ekki síður starfsmenn okkar. Ég kann þeim bestu þakkir fyrir alúð og elju að undanförnu.

Alþingi hefur nú komið miklu í verk með fjárlögum, skattalögum og fleiri ráðstöfunum.

Og nú tekur daginn að lengja.

Ég endurtek jólakveðjur mínar til ykkar.