138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:45]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég tók þátt í því fyrir hönd míns flokks að leiða til lykta samkomulag um það hvernig menn mundu ljúka málum fyrir jól. Það kom alveg skýrt fram af hálfu stjórnarflokkanna að það væri eindreginn vilji þeirra að ljúka Icesave-málinu milli jóla og nýárs. Við sögðum það algerlega skýrt þá, og nú vísa ég til orða formanns Sjálfstæðisflokksins, að af okkar hálfu yrði þetta mál tekið út úr nefnd jafnvel þó að ekki lægju fyrir endanleg álit allra þeirra sem óskað var eftir. (Gripið fram í.) Ja, þetta kom alveg skýrt fram, og eins og ég man þetta var því í sjálfu sér ekki mótmælt neitt sérstaklega, enda liggur umrætt álit fyrir og menn geta rætt það.

Ég vil hins vegar segja að það er alveg rétt sem hér hefur komið fram, að það var ekki formlegt samkomulag um hvernig fundum yrði háttað. Ég vil þó rifja upp að ég lagði fram þá eindregnu ósk að fundur mundi byrja í dag kl. 9 eða 10. Því var í sjálfu sér ekki mótmælt þá. Hann byrjaði kl. hálftvö og ég tel að stjórnarandstaðan ætti að virða það við okkur að hann byrjaði ekki fyrr en kl. hálftvö jafnvel þó að (Forseti hringir.) farið verði inn í kvöldið. Ég tel hins vegar sjálfsagt að greidd verði atkvæði um það og ég er þeirrar skoðunar að þessi fundur eigi að standa vel inn í nóttina. (Forseti hringir.)