138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:58]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra vísaði í skriflegt samkomulag sem gert var á milli formanna stjórnar og stjórnarandstöðu. En það hefur reynst afar erfitt að fá stjórnarliða til að standa við það samkomulag og ég held að það hafi verið staðfest áðan í ræðu hæstv. utanríkisráðherra að það hafi verið svikið vegna þess að stjórnin gat ekki beðið eftir hinu svokallaða IFS-áliti sem er þó þannig vaxið að það verður að fara yfir það ítarlega. Það hefur ekki verið gert í fjárlaganefnd.

Ég bendi líka á að hæstv. forseti ætlaðist til þess að nefndarmenn í fjárlaganefnd mundu vinna að áliti yfir jólahátíðina og fara yfir öll þau ítarlegu gögn sem bárust þó að sum þeirra hafi ekki borist fyrr en seint á Þorláksmessukvöld. Mér finnst með hreinum ólíkindum að ríkisstjórn sem eitt sinn boðaði fjölskyldustefnu á Alþingi ætli að neyða þingmenn (Forseti hringir.) til að starfa fram á kvöld og hugsanlega langt fram á nótt. (Forseti hringir.) Ég segi nei.