138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:00]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Gleðilega hátíð, hv. þingmenn og ágætir félagar. Ég tala hér fyrir framhaldsnefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 96/2009, um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf.

Eins og kemur fram í þessu framhaldsnefndaráliti kallaði fjárlaganefnd til ýmsa aðila við vinnslu málsins á milli umræðna. Þar var rætt við þá sem komu að lagasetningunni á sínum tíma. Það var rætt við lögfræðinga, m.a. um stjórnarskrárákvæði. Stórum hluta mála sem komu þarna til umræðu var vísað til fastanefnda Alþingis, þ.e. til efnahags- og skattanefndar, viðskiptanefndar og utanríkismálanefndar, og tók fjárlaganefnd við áliti frá þessum nefndum, bæði minni og meiri hluta þar sem það átti við. Rætt var við skilanefnd og slitastjórn Landsbankans, Ragnar Hall lögfræðing, fulltrúa Seðlabankans og einnig mættu fulltrúar IFS Greiningar og gerðu grein fyrir áliti sínu og áhættumati rétt fyrir jólin. Þessa aðila vantar raunar á listann með framhaldsnefndarálitinu.

Ég ætla að fara yfir nefndarálitið og flytja það nánast orðrétt eins og það kemur fyrir með athugasemdum inn á milli. Byrjum á innganginum:

Hinn 4. desember sl. var af hálfu forseta Alþingis gert samkomulag við fulltrúa stjórnarandstöðunnar um meðferð þessa máls milli 2. og 3. umr. Jafnframt var þess óskað að aflað yrði gagna af fundum íslenskra ráðherra og erindreka þeirra með erlendum aðilum varðandi þetta mál sem og að málið kæmi til umfjöllunar hjá fastanefndum Alþingis. Á lista stjórnarandstöðunnar voru 16 atriði, þar af 14 efnisatriði.

Fjárlaganefnd hefur nú fengið álit og gögn frá utanríkismálanefnd, efnahags- og skattanefnd og viðskiptanefnd um málið, auk þess sem óskað var eftir viðbótargögnum frá ákveðnum aðilum eins og nánar greinir í áliti þessu. Í framhaldsnefndaráliti þessu verður gerð grein fyrir þeim meginatriðum sem komið hafa fram um lagalega, efnahagslega og pólitíska þætti málsins. Ætlunin er að fjalla um efnisatriðin 14 samhliða því sem í ríkum mæli verður vísað til gagna sem lýsa einstökum atriðum nánar og eru aðgengileg í erindaskrá málsins á vef Alþingis og að stórum hluta á vefnum island.is.

Ræðum fyrst þessi lagalegu álitamál og vitna ég þar til þeirra atriða sem voru á þessum lista með 16 atriðum. Lagaleg atriði eru nr. 1, 11, 12 og 13 á listanum frá 4. desember sl. og verður fjallað um þau í réttri röð.

Í fyrsta lagi eru álitamál sem tengjast stjórnarskránni og frumvarpinu 1. efnisatriðið á þessum lista. Settar hafa verið fram skoðanir, m.a. af Sigurði Líndal lagaprófessor, þess efnis að frumvarp þetta kunni að vera andstætt stjórnarskránni. Þetta hefur verið byggt á því að frumvarpið feli í sér of mikla skerðingu fullveldis, þ.e. brot á 1. gr. stjórnarskrárinnar, á því að dómsvald sé framselt til erlendra dómstóla, brot á 2. gr. stjórnarskrárinnar, og að krafa um skýra lagaheimild sé ekki uppfyllt, það væri þá brot á 40. og 41. gr. stjórnarskrárinnar. Samkvæmt áliti Bjargar Thorarensen og Eiríks Tómassonar, prófessora við lagadeild Háskóla Íslands, dags. 15. desember sl., samrýmist frumvarpið framangreindum ákvæðum stjórnarskrárinnar en áður höfðu þau lýst skoðunum sínum á fundi í fjárlaganefnd ásamt Ragnhildi Helgadóttur.

Í álitinu er ítarlega rakið á hvaða forsendum þessi niðurstaða er reist en í aðalatriðum er hún í fyrsta lagi byggð á því að ríkisábyrgð á Icesave-lánasamningunum feli ekki í sér neins konar afsal á löggjafarvaldi til annarra ríkja eða alþjóðastofnana þannig að stjórnarskrárbundnu fullveldi sé stefnt í hættu, í öðru lagi að Icesave-lánasamningarnir séu einkaréttarlegs eðlis og að með þeim hafi aðilar þeirra ráðstafað tilteknum álitaefnum án þess að það hafi nokkur áhrif á stjórnskipulega stöðu dómstóla og í þriðja lagi sé lagaheimild til veitingar ríkisábyrgðar skýr þar sem höfuðstóll lánanna sem ábyrgjast á liggur fyrir í hollenska lánasamningnum og að ákveðið hámark sé tiltekið í þeim breska. Í báðum samningunum reiknast svo vextir á höfuðstólinn og því er engin óvissa um mestu mögulega skuldbindingu íslenska ríkisins.

Til viðbótar við álit Bjargar og Eiríks sendi Davíð Þór Björgvinsson, dómari við Mannréttindadómstól Evrópu og prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, tölvupóst til nefndasviðs Alþingis 11. desember sl. Þar kom m.a. fram að hann teldi 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins ekki brjóta í bága við 2. gr. stjórnarskrárinnar. Nefndinni barst einnig samantekt Helga Áss Grétarssonar, sérfræðings við Lagastofnun Háskóla Íslands, dags. 2. desember sl. um álitaefni er lutu að því hvort frumvarpið bryti í bága við 1., 40. og 41. gr. stjórnarskrárinnar. Niðurstaða hans var sú að frumvarpið bryti ekki í bága við þessi ákvæði stjórnarskrárinnar.

Með vísan til þessara gagna sem fylgja málinu telur meiri hluti fjárlaganefndar að því sé afdráttarlaust svarað að ekkert í frumvarpinu fari í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar.

Síðan kemur lögfræðiálit sérfræðinga í enskum lögum á texta samninganna og þýðing þess að ensk lög gildi um samningana, þ.e. 12. og 13. efnisatriði sem voru tilgreind í þessum 16 punktum.

Fjárlaganefnd hefur fengið álit bresku lögmannsstofunnar Ashurst á texta lánasamninganna, dags. 16. desember sl., það er 12 blaðsíðna álit, og bresku lögmannsstofunnar Mishcon de Reya, dags. 19. desember sl., sem er 86 blaðsíðna álit. Þessi álit voru veitt eftir að fjárlaganefnd hafði beint fjórum spurningum til lögmannsstofanna með bréfi dags. 10. desember sl. Þessar lögmannsstofur höfðu áður komið að ráðgjöf fyrir íslensk stjórnvöld í þessu máli. Ashurst-lögmannsstofan veitti stjórnvöldum álit á lánasamningunum frá 5. júní sl. með greinargerð dags. 25. júní sl. og Nigel Ward, einn lögmanna stofunnar, aðstoðaði stjórnvöld við gerð viðaukasamninganna sem undirritaðir voru 19. október sl. Lögmannsstofan Mishcon de Reya veitti stjórnvöldum ráðgjöf um afmarkaða þætti málsins í mars á þessu ári.

Það er mat Ashurst að texti lánasamninganna sé hefðbundinn og í samræmi við alþjóðlega lánasamninga, í nokkrum tilvikum sé þar að finna ákvæði sem séu óvenjuleg, en þá yfirleitt íslenska tryggingarsjóðnum og íslenska ríkinu í hag. Fram kemur í álitinu að erfitt sé að fullyrða um hvort samningsaðilar hafi staðið jafnt að vígi við gerð samninganna. Aðstaða allra aðila hafi verið nokkuð óvenjuleg. Hollensk og bresk stjórnvöld vildu fá hluta af því fé til baka sem þau höfðu greitt út til innstæðueigenda á Icesave-reikningum útibús Landsbankans og íslensk stjórnvöld vildu fá aðgang að lánum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og öðrum ríkjum. Mat lögmannsstofunnar er að bresk og hollensk stjórnvöld hafi sýnt samningsvilja með því að gera viðaukasamningana frá 19. október sl. og þannig komið til móts við þau skilyrði sem sett voru við veitingu ríkisábyrgðarinnar með lögum nr. 96/2009.

Fram kemur í áliti Ashurst að venjubundið sé að ensk lög ráði réttarstöðu aðila í alþjóðlegum lánasamningum, sú skipan skipti hins vegar takmörkuðu eða engu máli þegar kemur að úthlutun eigna úr búi Landsbanka Íslands hf. en samkvæmt ákvæðum viðaukasamninganna breytast viss ákvæði lánasamninganna ef tiltekin niðurstaða fæst hjá dómstólum. Afsal friðhelgisréttinda íslenska ríkisins hafa takmarkaðri þýðingu nú eftir gerð viðaukasamninganna. (Gripið fram í: Að Ashurst …?) Samkvæmt Ashurst. Af þessu leiðir að telja verður nær útilokað fyrir bresk og hollensk stjórnvöld að fá dómi sem kveður á um greiðsluskyldu íslenska ríkisins á grundvelli samninganna fullnægt með aðför.

Þetta atriði hefur mikið verið rætt, en af þessum álitsgerðum má skilja að áhættan af því að íslenskar eignir yrðu teknar upp í skuld hafi verið stórlega ofmetin. Sjálfstæði Íslands og fullveldi sé svo sjálfsagt að ekki þurfi að semja um það.

Í álitsgerð Mishcon de Reya er farið mjög rækilega yfir einstök ákvæði lánasamninganna annars vegar og hins vegar ákvæði uppgjörssamnings bresku og íslensku tryggingarsjóðanna. Miðað við hversu ítarlega umfjöllun öll ákvæði lánasamninganna hafa fengið fram til þessa þykir ekki ástæða til að fara í saumana á einstökum atriðum sem koma fram í álitsgerðinni. Margt í álitsgerðinni felur í sér málefnalega gagnrýni á hvernig staðið var að frágangi samkomulagsins 5. júní sl., svo sem að sum ákvæði samninganna um heimildir lánveitenda til að gjaldfella samningana séu honum hagstæð. Þegar á heildina er litið metur lögmannsstofan samkomulagið ósanngjarnt fyrir íslenska ríkið og telur samningana ekki nægjanlega ljósa í nokkrum atriðum.

Að mati meiri hlutans kemur fátt nýtt fram í álitsgerðinni um þau atriði sem varða sérstaklega breytingarnar sem gerðar hafa verið með viðaukasamningunum. Í álitsgerðinni koma fram vangaveltur um að munur sé á bresku og hollensku lánasamningunum hvað varðar ábyrgð ríkisins. Sú ábyrgð sé ríkari samkvæmt breska samningnum vegna þess að sá samningur sé í tveimur hlutum. Meiri hlutinn getur ekki tekið undir þetta sjónarmið. Uppgjörssamningur bresku og íslensku tryggingarsjóðanna er samkvæmt breska lánasamningnum skilgreindur sem fjármálaskjal og hann er því hluti af heildarsamningum aðila, samanber t.d. 1. kafla og kafla 3.6 í almennum athugasemdum við frumvarpið og III. kafla í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar, dags. 16. nóvember sl. Einnig leiðir af eðli máls að lækki skuld tryggingarsjóðsins vegna greiðslna úr þrotabúi Landsbanka Íslands mun ábyrgð íslenska ríkisins á skuldbindingum tryggingarsjóðsins lækka sem því nemur. Að mati meiri hlutans er það ekki vafa undirorpið að látið verður á það reyna hvort íslenski tryggingarsjóðurinn njóti forgangs við úthlutun krafna í búi Landsbankans vegna sömu innstæðu. Hagstæð niðurstaða í því efni mun lækka umtalsvert fjárhæð ríkisábyrgðar, samanber það sem síðar segir. Það er 4. efnisatriði.

Í álitsgerð Mishcon de Reya er að finna úttekt á evrópskum réttarreglum um innstæðutryggingar. Þar eru sett fram rök bæði með og á móti þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið beri ábyrgð á þessum skuldbindingum. Niðurstaðan er sú að þetta sé ekki skýrt, og óvíst hvernig dómstólar mundu leysa úr málinu. Áður hefur komið fram að íslensk stjórnvöld hafa haldið því fram allt frá upphafi Icesave-deilunnar að lagaleg óvissa sé um skuldbindingar Íslands, og ef út í það er farið annarra EES-ríkja, á grundvelli tilskipunar EB 94/19 um innlánatryggingakerfi. Í greinargerð Íslands vegna gerðardómsmeðferðar í kjölfar Ecofin-fundar í nóvember 2008 eru rök Íslands gegn ríkisábyrgð á skuldbindingum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta tíundaðar ítarlega. Álitsgerð Mishcon de Reya bætir litlu við röksemdir sem þar koma fram gegn skyldu Íslands til að ábyrgjast lágmarksinnstæðutryggingar dugi eignir sjóðsins ekki til. Álitsgerðin gefur hins vegar gott yfirlit yfir röksemdir fyrir gagnstæðri niðurstöðu, þ.e. að Íslandi beri að ábyrgjast lágmarksinnstæðutryggingar, og dregur þannig skýrt fram þá áhættu sem í því fælist að ná ekki samningsniðurstöðu í Icesave-deilunni.

Næsti kafli fjallar um mat á áhrifum endurskoðunar á löggjöf ESB um innlánatryggingakerfið á skuldbindingar Íslands samkvæmt samningunum, það er 13. efnisatriði af þessum 16 sem lagt var upp með.

Í álitsgerðum bresku lögmannsstofanna er fjallað um ýmsa fleti þessa atriðis en fram kemur í þeim báðum að endurskoðun ESB á innlánstryggingakerfinu hafi samkvæmt samningunum engin áhrif á þá. Þessi niðurstaða kemur ekki á óvart. Um þetta málefni er einnig fjallað í minnisblaði efnahags- og viðskiptaráðuneytisins, dags. 14. desember 2009. Að mati meiri hlutans hafa ekki verið leidd fram gögn eða heimildir sem auka líkur á að breytingar í framtíðinni á skipulagi innstæðutrygginga í Evrópu muni hafa sjálfkrafa áhrif á réttarstöðu íslenska ríkisins gagnvart breskum og hollenskum stjórnvöldum. Hins vegar er í þessu sambandi rétt að vísa til sameiginlegrar yfirlýsingar fjármálaráðherra Íslands, Hollands og Bretlands um að málsaðilar lýsi sig tilbúna til að ræða málefni lánasamninganna ef aðstæður krefjast þess. Þó svo að umrædd yfirlýsing hafi ekki lagalegt gildi hefur hún á hinn bóginn mikið pólitískt vægi og vitnar um afstöðu aðila til ýmissa álitaefna.

Nú kem ég að kaflanum sem fjallar um efnahagsleg álitamál. Telja verður að 2.–8. efnisatriði á áðurnefndum lista yfir atriðin 16 frá 4. desember varði aðallega efnahagsleg álitamál. Þessum atriðum verð nú gerð skil í stuttu máli, en að öðru leyti er vísað til skjala sem fylgja framhaldsnefndaráliti þessu.

Fyrst má nefna mat á því hversu miklar fjárhagsskuldbindingar Icesave-lánasamningarnir fela í sér. Það er 2. efnisatriðið.

Fjárhagsskuldbindingar íslenska ríkisins sem ábyrgðaraðila eru reistar á þeirri skuldbindingu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta að greiða breska ríkinu til baka allt að 2,35 milljarða punda og hollenska ríkinu tæplega 1,3 milljarða evra. Á móti þessum skuldbindingum fær sjóðurinn framseldar kröfur á hendur þrotabúi Landsbanka Íslands. Samkvæmt mati skilanefndar og slitastjórnar Landsbankans frá 23. nóvember sl. er áætlað að 89% af forgangskröfum muni endurheimtast úr búinu sem er mun betra endurheimtuhlutfall en gert var ráð fyrir í upphafi þegar áætlaðar endurheimtur námu 75%. Sé skuldbinding ríkissjóðs vegna Icesave-lánasamninganna núvirt, miðað við þar tilgreindar forsendur stendur skuldin nú í 183 milljörðum kr., samanber bls. 2 í minnisblaði fjármálaráðuneytisins, dags. 14. desember 2009, og minnisblað Seðlabankans, dags. 21. október 2009. Þessar forsendur geta tekið breytingum og þannig breytt fjárskuldbindingum ríkisins, bæði til hækkunar og lækkunar.

Hér er ástæða til að skjóta inn í nefndarálitið að samkvæmt ítarlegu áliti IFS Ráðgjafar er skuldastaða í álitum Seðlabanka Íslands og AGS of bjartsýn og þeir hjá IFS Ráðgjöf segja að 10% líkur séu á því að Ísland lendi í greiðsluþroti, geti ekki staðið við skuldbindingar sínar. Þar er horft til ýmissa þátta, en þó fyrst og fremst til gengisáhættu, en að auki til aukningar á landsframleiðslu, hvernig sú þróun verður og þróun hagvaxtar, vöruskiptajafnaðar, hve seint innheimtar eignir úr búi Landsbankans berist, verðbólgu á Íslandi samanborið við Holland, Bretland o.fl. Eftir stendur spurningin: Hver væri staðan án Icesave? Væri hún miklu betri? Hve miklu minni væri áhættan? Hver er áhættan af að bíða og reyna að semja að nýju eða láta Breta og Hollendinga sækja kröfur sínar til Íslands? Til hvaða ráða er best að grípa? Hvað kostar að hefja þriðju samningalotuna og hvers megum við þá vænta? IFS Greining dregur fram áhættuþætti og er það vel, en nú sem áður getur enginn svarað fyrir okkur alþingismenn. Hvað gerum við við þessar upplýsingar? Ég kem að þeim þætti síðar.

Næsti kafli í álitinu fjallar um hættu á því að kveða á um skilyrðislausa greiðsluskyldu á vöxtum. Það var 3. efnisatriðið af þessum 16.

Í minnisblaði fjármálaráðuneytisins, dags. 15. desember sl., var metið hver væri áhættan tengd því að kveða á um skilyrðislausa greiðsluskyldu á vöxtum. Matið miðaðist við tilteknar forsendur um endurheimtur forgangskrafna í búi Landsbankans, grunnforsendur Seðlabankans um hagvöxt, gengi o.fl. Niðurstaðan var sú að vextir héldust ávallt undir greiðsluhámarki samninganna. Það sama mundi gerast ef endurheimtur yrðu lægri. Því voru taldar óverulegur líkur á því að vaxtagreiðslur yrðu einhvern tímann hærri en árlegt greiðsluhámark samkvæmt samningunum.

4. efnisatriðið varðar mat á fjárhagslegri þýðingu breytinga á efnahagslegum fyrirvörum. Hinir efnahagslegu fyrirvarar héldu að mestu leyti gildi sínu fyrir utan að vextir skyldu ávallt greiddir og óumdeilt er orðið að höfuðstóll lánanna mun ekki falla sjálfkrafa niður. Það kom náttúrlega oft fram í umræðunni að einhverjir af þeim sem hér samþykktu fyrirvarana, þótt þeir samþykktu svo ekki lokaafgreiðsluna, túlkuðu málið þannig að skuldin félli sjálfkrafa niður árið 2024. Slík samþykkt var aldrei gerð og var ekki inni í frumvarpinu. Aftur á móti féll ríkisábyrgðin niður, en þá átti að semja um það áður en til þess kæmi með hvaða hætti yrði farið með málið í framhaldinu, hvort veitt yrði frekari ríkisábyrgð eður ei. Þetta lá í sjálfu sér ljóst fyrir, en yfirlýsingar um að þetta félli niður voru meðal ástæðnanna fyrir því að menn sóttu mjög fast að kveðið yrði á um það að lánið yrði greitt til enda jafnvel þó að fyrirvararnir væru látnir gilda um endurgreiðsluna.

Fjallað hefur verið um áhrif þess að vextir skulu ávallt greiddir en talið er að það hafi óverulega þýðingu miðað við þær forsendur sem liggja nú fyrir, eins og áður sagði.

Mat á fjárhagslegri þýðingu á breytingu fyrirvara er varða reglur um úthlutun úr þrotabúi Landsbanka Íslands hf. var 5. efnisatriðið í þessum 16 atriða lista.

Í viðaukasamningunum er nú kveðið á um að jafnstöðuákvæði lánasamninganna vegna úthlutunar úr þrotabúi Landsbankans víki komist íslenskir dómstólar að niðurstöðu sem ekki sé í andstöðu við ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins, um að íslenski tryggingarsjóðurinn njóti forgangs umfram breska tryggingarsjóðinn og hollenska seðlabankann við úthlutun úr þrotabúi bankans. Verði þetta niðurstaðan er það til verulegra hagsbóta fyrir ríkissjóð og má áætla að skuldbinding hans lækki umtalsvert, samanber minnisblað fjármálaráðuneytisins, dags. 15. desember sl. Fjallað er nánar um lagaleg áhrif reglunnar í minnisblaði íslenska tryggingarsjóðsins, dags. 14. desember sl.

Þessu til viðbótar má geta þess að Ragnar Hall lögfræðingur mætti fyrir nefndina og túlkaði samningana þannig að ef EFTA-dómstóllinn gæfi ekki álit mundu niðurstöður íslenskra dómstóla ekki gilda. Þetta stangaðist á við túlkun þeirra aðila sem gengu frá frumvarpinu á sínum tíma, Helga Áss Grétarssonar, Eiríks Tómassonar o.fl. Þeir sögðu afdráttarlaust að ef ekki fengist álit frá EFTA gilti álit íslensku dómstólanna. Þessu til áréttingar sendi Eiríkur Tómasson 21. desember sl. tölvupóst sem hefur verið birtur sem hluti af gögnum málsins. Þar stendur m.a., með leyfi forseta:

„Upphaflegt orðalag á þessum samningsákvæðum“ — þ.e. varðandi EFTA-ákvæðið — „gerði ráð fyrir að úrskurður íslensks dómstóls yrði að vera í samræmi við álitið sem hefði að mínu áliti“ — þ.e. Eiríks Tómassonar — „þýtt að EFTA-dómstóllinn hefði þurft að taka álitaefnið til efnislegrar úrlausnar til þess að úrskurðurinn gæti haft áhrif á höfuðstól lánanna.“

Orðalagið „ekki í andstöðu við ráðgefandi álit sem aflað hefur verið frá EFTA-dómstólnum“ girðir fyrir þá niðurstöðu að úrskurður íslensks dómstóls geti ekki haft áhrif í þessa veru, þ.e. í því tilviki að aflað hafi verið ráðgefandi álits frá dómstólnum og hann tekið þá afstöðu í ráðgefandi áliti sínu að álitaefnið heyri ekki að neinu leyti undir hann, heldur undir íslenska dómstóla, þ.e. að ef ekki kemur álit stangast það ekki á við íslenska dómstóla og þar með á þetta ekki við sem hér hefur oft verið rætt, að — (Gripið fram í.) Það er sú niðurstaða sem við höfum fengið frá þeim aðilum sem um þetta hafa fjallað með okkur. (Gripið fram í: … meira.) Við skulum ekki rökræða úr ræðustóli, það er auðvitað þannig að menn sperra eyrun við mismunandi atriðum og velja þau atriði sem þeir vilja heyra. (Gripið fram í: Í staðinn fyrir …) Við fengum þessa (Forseti hringir.) niðurstöðu og hún liggur fyrir.

(Forseti (ÞBack): Gefa ræðumanni hljóð.)

Það er hún sem ég er að gera grein fyrir í ræðustóli með áliti meiri hluta fjárlaganefndar.

Mat á gengisáhættu samninganna er 6. efnisatriðið.

Varðandi gengisáhættu Icesave-lánasamninganna er vísað til minnisblaða Seðlabanka Íslands, dags. 15. júlí 2009 og 21. október 2009. Ítrekaðar eru skýringar meiri hluta fjárlaganefndar um þetta atriði í nefndaráliti á þskj. 247 úr fyrri umræðu. Þessu til viðbótar eru ítarlegar upplýsingar um þetta frá IFS Greiningu þar sem þeir benda á gengisáhættuna í þessu máli og vísa ég til þess álits sem fylgir með.

Mat á fjárhagslegri þýðingu þess að samkvæmt samningunum séu vextir fastir, þ.e. 5,55%, en ekki breytilegir er 7. efnisatriðið af þessum 16.

Með tilliti til þess að verulegur hluti erlendra skulda ríkisins og Seðlabankans ber breytilega vexti þótti óráðlegt í Icesave-samningunum að auka vaxtaáhættu ríkissjóðs enn frekar með lánum með breytilegum vöxtum. Útreikningar sem sýna kosti og galla þess að hafa breytilega og fasta vexti eru m.a. útskýrðir í minnisblaði Seðlabankans, dags. 11. desember sl. Þar kemur fram að líklegast eru vaxtakjör íslenska ríkisins samkvæmt Icesave-samningunum hagstæðari til lengri tíma litið en samkvæmt lánasamningum milli Íslands og Norðurlanda og milli Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Mat á þýðingu nýrra upplýsinga um mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á greiðsluþoli ríkissjóðs var 8. efnisatriðið. Samkvæmt minnisblaði Seðlabankans, dags. 18. desember sl., hefur nýtt mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um greiðsluþol ríkissjóðs ekki breytt miklu. Niðurstaðan er sú að verg skuld hins opinbera í árslok 2010 verður nokkru minni en gert var ráð fyrir í síðustu áætlun sjóðsins. (Gripið fram í.)

Varðandi pólitísk álitamál sem eru IV. kafli í nefndarálitinu var á listanum frá 4. desember sl. óskað eftir nánari upplýsingum um atriði sem telja verður pólitísk í eðli sínu, þ.e. 9., 10. og 14. efnisatriði. Með áliti utanríkismálanefndar, dags. 19. desember sl., fylgja skjöl sem skýra 9. og 10. efnisatriði en í álitsgerðum bresku lögmannsstofanna er m.a. fjallað um 14. efnisatriði. Í þessum álitum var óskað eftir nánari upplýsingum frá fyrrverandi utanríkisráðherra Íslands, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, um hverjar forsendur Brussel-viðmiðanna voru og sömuleiðis frá fyrrverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde.

Í minnisblaði utanríkisráðuneytis og fjármálaráðuneytis, dags. 14. desember sl., er gerð grein fyrir aðdraganda að gerð svokallaðra Brussel-viðmiða. Fram kemur í minnisblaði fyrrverandi utanríkisráðherra, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, að með hinum sameiginlegu viðmiðum hafi verið reynt að tryggja að í viðræðum Íslands, Bretlands og Hollands yrði gætt jafnvægis milli þeirra skuldbindinga sem Íslendingar tækju á sig og þeirra „erfiðu og fordæmalausu“ aðstæðna sem ríktu á Íslandi en það orðalag vísaði til skuldaþols ríkissjóðs og greiningar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir stjórn sjóðsins á fordæmalausum aðstæðum á Íslandi þar sem bæði ríkti fjármála- og gjaldeyriskreppa. Fyrrverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde, skilaði einnig minnisblaði til utanríkismálanefndar, dags. 19. desember sl. Fyrrverandi forsætisráðherra og fyrrverandi utanríkisráðherra voru sammála um að Brussel-viðmiðunum hafi verið ætlað að leggja nýjan grunn að samningaviðræðum milli aðila frá því samkomulagi sem gert var um ákveðna grundvallarþætti málsins milli íslenskra og hollenskra stjórnvalda, dags. 11. október 2008.

Forsendur Brussel-viðmiðanna byggðust á að pólitísku samkomulagi yrði náð um lausn deilunnar og að mati fyrrverandi utanríkisráðherra fólu þau í sér pólitíska skuldbindingu sem á hinn bóginn skuldbatt Ísland ekki að þjóðarétti ef ný stjórnvöld vildu hafa þau að engu. Fram kom í minnisblaði Geirs H. Haarde að fulltrúi Frakklands, þáverandi formennskuríkis ESB, hafi mætt á viðræðufundi í Haag í byrjun desember 2008, en það hafi verið til að undirstrika að stofnanir ESB og EES mundu áfram taka þátt í samningsferlinu, samanber 3. tölulið Brussel-viðmiðanna.

Eitt af atriðunum, 10. efnisatriðið, var að skýra misræmi í túlkun forsætisráðherra Íslands og Bretlands á ákvæðum samninganna. Forsætisráðuneytið ritaði utanríkismálanefnd minnisblað, dags. 14. desember sl., um meint misræmi í túlkun forsætisráðherra Íslands og Bretlands á ákvæði Icesave-lánasamninganna. Fram kemur í minnisblaðinu að ekki felist misræmi í bréfum ráðherranna, heldur sé lögð áhersla á mismunandi atriði í samningunum sem stangist engan veginn á.

Mat á afleiðingum þess að frumvarpið verði ekki samþykkt óbreytt eða að dráttur verði á samþykkt þess var 14. efnisatriðið.

Í álitsgerðum bresku lögmannsstofanna er nokkuð ítarlega fjallað um þetta efnisatriði, ekki síst í álitsgerð lögmannsstofunnar Mishcon de Reya. Jafnframt er um þetta fjallað í minnisblaði fjármálaráðuneytisins, dags. 16. desember sl., ásamt því sem fyrir lá greining Seðlabanka Íslands á afleiðingum tafa á endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands, dags. 6. október sl., og greinargerð efnahags- og viðskiptaráðuneytisins um sama efni, dags. 8. október sl. Með minnisblaði fjármálaráðuneytisins fylgdi bréf danska fjármálaráðuneytisins til fjármálanefndar danska þingsins um lánafyrirgreiðslu til Íslands, dags. 23. nóvember sl., en í því minnisblaði kemur skýrt fram að fyrirgreiðslan miðast við að íslenska ríkið gangi frá samningum um lausn Icesave-málsins.

Fram kemur í álitsgerðum bresku lögmannsstofanna að höfnun frumvarpsins muni að öllum líkindum leiða til þess að bresk og hollensk stjórnvöld reyni að fá ýtrustu kröfum sínum framgengt fyrir dómstólum. (Gripið fram í.) Að mati þeirra beggja er óvíst hver úrslit slíks máls yrðu. Yrði niðurstaðan íslenska ríkinu óhagstæð yrðu greiðsluskilmálar væntanlega mun óhagstæðari en þeir sem kveðið er á um í fyrirliggjandi samningum. Málaferlin yrðu einnig tafsöm. Einnig er í álitsgerðunum bent á efnahagslegar og pólitískar afleiðingar þess að hafna frumvarpinu. Í álitsgerð Mishcon de Reya er vakin athygli á þeim valkosti að tefja afgreiðslu málsins í þeirri von að bæta samningsstöðu íslenska ríkisins.

Í minnisblaði fjármálaráðuneytisins er talið að höfnun frumvarpsins hefði alvarlegar efnahagslegar afleiðingar. Endurskoðun efnahagsáætlunar íslenska ríkisins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins mundi frestast. Trúverðugleiki landsins biði enn frekari hnekki. Afnám gjaldeyrishafta mundi tefjast verulega. Erfiðara yrði að endurfjármagna lán opinberra aðila og fyrirtækja í eigu þeirra. Að mati fjármálaráðuneytisins mundi lánshæfismat líklega lækka og gengi krónunnar sömuleiðis.

Telja verður að framangreindar heimildir veiti skýrar vísbendingar um afleiðingarnar verði frumvarpið ekki samþykkt eða að dráttur verði á samþykkt þess. Í öllum aðalatriðum er sú staða óbreytt að án lausnar Icesave-málsins fást ekki þau gjaldeyrislán sem efnahagsáætlun Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er reist á. Hugmyndir um að íslensk stjórnvöld geti tryggt sér enn betri samning en þann sem nú liggur fyrir, með því að draga að samþykkja hann eða samþykkja frumvarpið með breytingum, eru að mati meiri hluta fjárlaganefndar óraunhæfar. Óvíst er hver yrði niðurstaða dómstóla ef úr málinu yrði leyst þar. Meiri hluti fjárlaganefndar er sammála því mati fjármálaráðuneytisins að efnahagslegar afleiðingar þess að ljúka ekki málinu geti orðið alvarlegar.

Heildarmat er á þá leið að umfjöllun um uppgjör Íslendinga vegna Icesave-reikninga Landsbanka Íslands í Bretlandi og Hollandi hefur verið umfangsmeiri og ítarlegri en í nokkru öðru máli sem rætt hefur verið á Alþingi Íslendinga. Umræður um þá samninga sem gerðir voru við Breta og Hollendinga um lausn málsins hafa staðið yfir nær sleitulaust frá undirritun samninganna til dagsins í dag. Málið er byggt á ítarlegum gögnum, hefur verið rætt langtímum saman á Alþingi og í fastanefndum þingsins auk þess að hafa fengið mikið rými og vægi í þjóðfélagslegri umræðu.

Vart þarf að undirstrika enn og aftur þá miklu hagsmuni sem í húfi eru fyrir íslenskt efnahagslíf að samningar náist um þetta mál. Afar brýnt er að lausn finnist á málinu, einkum svo Ísland öðlist að nýju góðan aðgang að erlendum lánsfjármörkuðum á góðum kjörum en það skiptir sköpum við endurreisn efnahagslífs þjóðarinnar.

Almennt álit Evrópuþjóða er að íslensk stjórnvöld verði að bera ábyrgð á lágmarkstryggingu innstæðna og álit sömu þjóða er að Íslendingum beri að semja um lausn Icesave-deilunnar. Góð og traust samskipti við önnur lönd eru lykilatriði í því uppbyggingarstarfi sem stjórnvöld standa nú frammi fyrir og í því ljósi hafa þau allar götur frá því í október 2008 unnið að því að ná eins hagfelldri niðurstöðu í þessu máli og kostur er.

Í því frumvarpi sem hér um ræðir er lagt til að íslenska ríkið styðji, í formi ábyrgðaraðila, við Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta á uppgjöri við sparifjáreigendur í hollenskum og breskum útibúum Landsbanka Íslands. Með þeirri ábyrgð nást fram samningar um uppgjör sjóðsins þar sem eignir Landsbankans koma til lækkunar höfuðstóls, um hagstæða vexti, sveigjanlegan lánstíma og möguleika á virkri skuldastýringu. Nærtækast er að bera kjör samninganna við Breta og Hollendinga saman við önnur lán sem ríkið hefur tekið vegna efnahagshrunsins. Í þeim samanburði hljóta kjör lánasamninganna að teljast hagstæð eins og áður hefur komið fram.

Miðað við þá valkosti sem íslenska ríkið stendur frammi fyrir í þessu máli telur meiri hlutinn að nauðsynlegt sé að ljúka málinu með samþykkt þessa frumvarps. Ráða má af álitsgerðum bresku lögmannsstofanna Ashurst og Mishcon de Reya að verði frumvarpinu hafnað geti það leitt til ráðstafana af hálfu breskra og hollenskra yfirvalda sem óvíst er hvernig ljúki. Frekari gögn hafa verið lögð fram á fyrri stigum þessa máls sem hníga í þessa sömu átt. Hinar efnahagslegu og pólitísku afleiðingar sem það hefði í för með sér mundu hægja mjög á endurreisn íslensks efnahagslífs með enn meiri og alvarlegri afleiðingum en þegar hafa orðið vegna efnahagshrunsins.

Með vísan til þeirra röksemda sem koma fram í almennum athugasemdum við frumvarp þetta og í nefndaráliti meiri hlutans er lagt til að frumvarp þetta verði samþykkt óbreytt. (Gripið fram í: Algjörlega vonlaust.)

Við fáum tækifæri til að hlusta á röksemdir annarra um þetta mál. Það hefur komið fram í umræðunni allt frá upphafi að allir hafa talið sig þurfa að ljúka þessu máli þó að fátt hafi verið um tillögur að leiðum. Við erum komin að endalokum í þessu máli og verðum að gjöra svo vel að taka afstöðu. Við getum ekki ætlast til að aðrir geri það fyrir okkur. Fyrir liggja þúsundir blaðsíðna og viðtöl við á annað þúsund manns um þetta mál og nú er komið að okkur hv. þingmönnum að leiða málið til lykta í þinginu. (Forseti hringir.)