138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:38]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Lögmannsstofan Mishcon de Reya gerir einmitt þá athugasemd í áliti sínu hvernig fjallað er um Brussel-viðmiðin í þessum viðaukasamningum. Að mati lögmannsstofunnar er ekki hægt að nota þau viðmið sem samið var um í Brussel-viðmiðunum sem vörn síðar meir þar sem þau hafa verið tekin inn í viðaukasamningana án þess að þau séu þar efnislega. Það er einfaldlega vísað til þess að samið sé á grundvelli þeirra viðmiða en þess sér hvergi stað í efni samninganna. Það er þetta sem ég hef haft gríðarlegar áhyggjur af og ég tel að við eigum öll að hafa áhyggjur af. Mér fyndist ekkert lítilmannlegt þótt ríkisstjórnin mundi núna anda með nefinu, taka þetta mál til skoðunar enn einu sinni og hugsa það þar sem meginrökstuðningur fjármálaráðherra fyrir því að fara þyrfti í þetta mál svona var þetta ömurlega hollenska minnisblað sem var búið að undirrita, það væri grundvöllurinn að því að þetta þyrfti að fara svona. Nú hefur verið upplýst að það er rangt og það hlýtur að vera grundvallarforsendubrestur fyrir þessum ákvörðunum (Forseti hringir.) ríkisstjórnarflokkanna. Er það ekki nokkuð sem við verðum að fara í?