138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:41]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ömurlegt að sitja úti í þingsal og hlusta á þennan málflutning formanns fjárlaganefndar. Það er hreint með ólíkindum þegar verið er að færa rök fyrir því sem hjálpar íslensku þjóðinni út úr þessum hörmungarsamningum að ríkisstjórnarflokkarnir og hv. formaður fjárlaganefndar skuli finna því allt til foráttu og rök eingöngu með Bretum og Hollendingum en ekki hagsmunum íslensku þjóðarinnar. Það er ekki nema von að það fjúki í ýmsa þingmenn þegar þeir hlusta á þennan málflutning.

Mig langar til að spyrja hv. formann fjárlaganefndar eins. Þann 28. ágúst sl. lét hann hafa eftir sér í atkvæðagreiðslu um Icesave-frumvarpið sem þá varð að lögum með þumalskrúfum — ríkisstjórnin sá til þess að þá varð frumvarpið að lögum í fyrsta sinn: Hvað breyttist frá því í sumar þegar hann segir, með leyfi forseta:

„Það er Alþingi sem setur þessa fyrirvara og það er Alþingi sem mun fylgja þeim eftir. Við treystum á að þeir haldi og höfum fullvissu fyrir því.“

(Forseti hringir.)

Hvað breyttist, hv. formaður fjárlaganefndar?