138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:43]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi ríkisstjórn hefur tekið þá ákvörðun að afgreiða þetta mál í sátt við hið svokallaða alþjóðasamfélag, sem nær til Evrópu hjá Samfylkingunni, en ekki í sátt við þjóðina. Ég minni formann fjárlaganefndar á að 70% Íslendinga eru á móti þessu máli. Ég skil ekki hvernig hægt er að tala um sátt úr þessum ræðustól þegar Icesave er til umræðu. (HöskÞ: Gjá milli þings og þjóðar.) Það er alveg hreint með ólíkindum. Hér er gjá á milli þings og þjóðar, svo sannarlega, og hefur hún sjaldan verið stærri enda málið gríðarstórt og bindur framtíðarkynslóðir um fleiri hundruð milljarða. Þetta mál er svo alvarlegt að það er með ólíkindum að það skuli vera komið hér inn á borð aftur, sér í lagi þar sem í gildi eru lög um þetta efni þannig að þessi ríkisstjórn virðist fyrir áramót ætla að fara með þjóðina fram af brúninni, því miður, það eru staðreyndir. Og svo er vísað í fræðimenn sem koma (Forseti hringir.) og segja álit sitt við þessu frumvarpi, en það eru sömu fræðimennirnir (Forseti hringir.) og hjálpuðu ríkisstjórninni að semja frumvarpið (Forseti hringir.) hið síðara.

(Forseti (ÞBack): Forseti biður hv. þingmenn um að virða ræðutímann. Hann er skammur, ein mínúta.)