138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:09]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Þór Saari benti í lok máls síns á að það væri einkennilegt hvernig raðað væri á jötuna á ný hjá þessari gegnsæju vinstri stjórn og vísaði þá líklega til nýráðningar Jóns Sigurðssonar, fyrrverandi ráðherra Alþýðuflokksins, sem tilheyrir nú Samfylkingunni, í stjórn Íslandsbanka. Það var tilkomumikið að sjá þennan einstakling í auglýsingabæklingi Icesave þegar Icesave-reikningarnir voru markaðssettir í Hollandi, það er ágætt að það komi hér inn.

Það er farið vel yfir málið í álitinu og þakka ég þingmanninum fyrir hvað þetta er greinargott hjá honum, enda hefur hv. þm. Þór Saari oft komið með góðar ábendingar og mikinn og góðan fróðleik inn í þingið. Mig langar til að spyrja þingmanninn eins úr því að ég er komin hér upp: Kallaði fjárlaganefnd ekkert eftir uppgjöri á eignum Landsbankans? Það er rokkandi með það og álitamál hvað það er mikið upp í Icesave-reikningana. Hvernig stendur á því að skilanefnd Landsbankans hefur þessar upplýsingar en ekki fjárlaganefnd og Alþingi? Alþingi Íslendinga fer með ríkisábyrgðarvaldið (Forseti hringir.) en ekki skilanefnd Landsbankans. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Hvað er um að vera hér? (Gripið fram í: Nákvæmlega.)