138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:12]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir svörin. Já, það er alveg hreint með ólíkindum að skilanefnd gjaldþrota banka sem er að fara hér með heila þjóð fram af bjargbrúninni hafi upplýsingar sem sjálft ríkisábyrgðarvaldið, Alþingi Íslendinga, hefur ekki. Þetta eru dæmi um vinnubrögð þessarar ríkisstjórnar. Málið er búið að vera dautt frá upphafi, enda hefur það oft komið fram í máli mínu og annarra þingmanna að Íslendingar bera ekki ábyrgð á þessum skuldbindingum því að reglugerðin sem þetta ákvæði er byggt á og ríkisábyrgðin standast ekki dómstóla, enda vilja Bretar ekki viðurkenna lögsögu íslenskra dómstóla í þessu máli. Þetta er alveg hreint með ólíkindum.

Úr því að við erum að ræða hér persónur og leikendur ætla ég að minna þingmanninn á það, af því að ég veit að ég deili áhuga mínum með Hreyfingunni í því, að sjálfur Björgólfur Thor sækist nú þegar eftir að reisa gagnaver og reka það á Íslandi (Forseti hringir.) en samt má ekki aflétta bankaleyndinni af (Forseti hringir.) föllnum banka hans og félaga hans.