138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:14]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þar sem ég á ekki sæti í fjárlaganefnd langar mig að fá aðeins upplýsingar um málsmeðferðina í nefndinni. Milli 2. og 3. umr. var upplýst með því minnisblaði sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, lagði fram í nefndinni að þetta mál væri allt byggt á misskilningi af hálfu ríkisstjórnarflokkanna, þ.e. forsendur þeirra ákvarðana sem ríkisstjórnin tók eru brostnar. Miðað við ræðu hæstv. fjármálaráðherra þegar mál þetta var lagt hér fram var niðurstaðan fengin vegna minnisblaðs sem undirritað var við Hollendinga. Síðan er upplýst við meðferð málsins í fjárlaganefnd að þetta minnisblað hafi fallið úr gildi við það að Brussel-viðmiðin voru undirrituð. Mig langar að fá aðeins upplýsingar um það hvernig farið var með þessa staðreynd og þessar upplýsingar í fjárlaganefnd, hvort virkilega hafi ekki komið til greina af hálfu meiri hlutans (Forseti hringir.) að taka málið upp og skoða það að nýju þar sem augljóst er að það er algjör forsendubrestur fyrir þeim ákvörðunum sem (Forseti hringir.) ríkisstjórnin hefði tekið í þessu máli.