138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:20]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það vill þannig til að ég er hagfræðingur og hef starfað í alþjóðlegu umhverfi í áratugi. Ég þekki vel hvað það þýðir þegar lögð er fram sú staðreynd að 10% líkur séu á gjaldþroti þjóðar. Það er fáheyrt. Ég minnist þess ekki nokkurn tímann á mínum ferli að hafa séð slíkar upplýsingar lagðar fram. Þess vegna þýðir ekki að segja að það séu 90% líkur á að við stöndumst þetta. Þetta er algjörlega fráleitur málflutningur. Það að 10% líkur séu á gjaldþroti þjóðar er einfaldlega grafalvarlegt mál. Það er ekki farið yfir það af hálfu fjárlaganefndar hvað það þýðir í rauninni en það er einfaldlega mjög varasöm staða, því miður.