138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:21]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ekki skal ég gera lítið úr 10% líkum, tel þó að 90% vegi þyngra á metum en 10%. Hins vegar eru líkur á því að margt annað geti gerst ef við göngum ekki frá þessu máli eins og okkur ber. Frestun á annarri endurskoðun efnahagsáætlunarinnar milli íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er líkleg, (Gripið fram í.) afnám gjaldeyrishafta mun trúlega frestast umtalsvert, endurfjármögnun verður erfiðari, t.d. lána ríkis, sveitarfélaga og orkufyrirtækja, lánshæfismatið mun þrátt fyrir orð þingmannsins að mati alþjóðlegra matsfyrirtækja lækka ef okkur tekst ekki farsællega að ganga frá þessu máli enda hafa þau þegar sett íslenska ríkið í lægsta fjárfestingarflokk. Það eru allar líkur á meiri lækkun krónunnar, aukinni verðbólgu og töfum á vaxtalækkunum, og meiri líkur á því að vextir muni hækka. Það eru með öðrum orðum verulegar líkur (Forseti hringir.) á því að endurreisn efnahagslífsins muni tefjast umtalsvert. Eins og kemur fram í þessu (Forseti hringir.) áliti veltur þetta allt á hagvexti þjóðarinnar (Forseti hringir.) sem aftur veltur á því að okkur takist (Forseti hringir.) að leysa þetta mál. (Gripið fram í.)