138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:23]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Hér talaði hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir sem hæstv. fjármálaráðherra væri. Þetta eru þau rök og sá hræðsluáróður sem hæstv. fjármálaráðherra hefur haft uppi um þetta mál allan tímann. Það er einfaldlega svo með lánshæfismat að það byggist á því hver reiknuð greiðslugeta skuldarans er. Greiðslugeta Íslands að viðbættum Icesave-skuldbindingunum er miklu verri en hún verður ef þær verða ekki samþykktar.

Víða hefur komið fram að þær þjóðir sem hafa lent í því að geta ekki staðið undir skuldbindingum, hafa einfaldlega hafnað því og lýst yfir skuldaþroti, lenda í skammtímaerfiðleikum en til lengri tíma er vegurinn bjartari. Nákvæmlega það öfuga mun gerast með þetta Icesave-mál, við munum hugsanlega fá að einhverju leyti gott veður í smástund en efnahagslegur raunveruleiki mun slá okkur niður áður en mjög langt um líður og við munum til mjög langs tíma eiga við mjög langvarandi og erfiða tíma að etja.