138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:24]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni mjög greinargóða ræðu. Þar var reyndar svarað hluta af því sem ég hugðist spyrja um en í framhaldinu hefur komið upp nýtt mál sem ég vildi gjarnan heyra álit hv. þingmanns á, það eru þessi dæmalausu ummæli hæstv. fjármálaráðherra um það að það sé á einhvern hátt jákvætt að það séu 90% líkur, eins og hann stillti þessu upp, á að við munum geta greitt þessar skuldir, þessar skuldbindingar eins og ráðherrann orðaði það. Hann fór þannig í rauninni gegn málflutningi eigin ríkisstjórnar eins og hann var orðinn, á þá leið að þetta væru ekki eiginlega skuldbindingar sem við ætluðum þó að taka á okkur.

Hefur ekki vantað inn í þessa umræðu hverjar afleiðingarnar yrðu fyrir samfélagið af því að endurfjármagna sig út í hið óendanlega og halda áfram að borga jafnvel þó að það kunni að vera líkur á að menn geti gert það?

Hv. þingmaður kom reyndar dálítið inn á það í ræðu sinni, en ég mundi gjarnan vilja heyra nánari útlistun á því og spyr: Hvernig samfélag er það sem er eingöngu í því að reyna að framleiða vörur til útflutnings (Forseti hringir.) en hefur ekki efni á neinu öðru?