138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:08]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er erfitt að eiga málefnalegar samræður við mann sem treystir sér ekki til að fara efnislega í málið, hvað þá að vísa rétt til þeirra orða sem hér hafa verið sögð af hálfu minni hlutans. Við höfum aldrei sagt, aldrei nokkurn tímann, að við ætlum ekki að borga krónu af Icesave-samningunum. Við neitum hins vegar að borga meira en við verðum nokkurn tímann lagalega skuldbundin til að gera. Ég fór ítarlega yfir það í máli mínu áðan að staða okkar í dag er miklu, miklu verri en ef við mundum tapa máli fyrir hlutlausum dómstólum. Hér er vísað enn á ný til efnahagslegrar óskilgreindrar hættu sem hv. þingmaður treysti sér ekki til að koma upp í ræðupontu og útskýra. Ég hef hins vegar spurt í fjárlaganefnd, t.d. sendiherra í Bretlandi, (Forseti hringir.) hvort Bretar mundu setja á okkur viðskiptahöft. Hvert var svarið? Fjarstæða, útilokað. Það mun bara alls (Forseti hringir.) ekki gerast vegna þess að Bretar hafa miklu meiri hagsmuni af því að okkur gangi vel (Forseti hringir.) og eiga viðskipti við okkur en nokkur önnur þjóð.