138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:12]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er augljóslega svo í þessum þingsal að það þykir persónuleg svívirða þegar talað er um barnalegt háttalag en það að væna stjórnarþingmenn um að vinna gegn hagsmunum þjóðar sinnar, virðist ekki teljast til persónulegs níðs. (VigH: Það er vont að heyra sannleikann.) Það gildismat hv. þingmanns fellur mér ekki.

Varðandi spurningu mína tel ég merkilegt að þingmaðurinn horfi fram hjá því þegar hann talar um 10% líkur á þjóðargjaldþroti, sem ég vil taka undir að er afskaplega alvarlegt og eru aðstæður sem eru upp komnar vegna þess bankahruns og gjaldmiðilshruns sem varð hér á landi og er óháð Icesave-skuldbindingunni í sjálfu sér, nema að því leyti að þær byggja upp hluta þeirra skulda sem við stöndum frammi fyrir af þeim sem ég hef jafnframt talið upp hér áður. Ég velti þá fyrir mér hvort hann telji að lánstraust, sem hv. þingmaður (Forseti hringir.) fór hér yfir af miklum fjálgleika, aukist ef við ýtum með honum á nei-takkann síðar í vikunni.