138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:23]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Ég ítreka bara það sem kom fram í fyrra andsvari mínu að báðar bresku lögmannsstofurnar eru þeirrar skoðunar að við eigum það á hættu að greiða 600–700 milljarða til viðbótar.

Hv. þingmaður sagði í andsvari sínu að enginn hefði farið í gegnum það hvað mundi gerast ef við tækjum ekki á okkur Icesave-skuldbindinguna. Það er rangt því að fyrir efnahags- og skattanefnd komu fjölmargir aðilar sem fóru í gegnum það, t.d. Friðrik Már Baldursson, prófessor við Háskóla Íslands, sem sagði í sínu áliti:

„Áhættu af því að ganga nú frá greiðsluákvæðum Icesave verður að vega á móti áhættunni sem felst í því að fresta málinu frekar. Núverandi gjaldeyrisforði kann að duga til að standa skil á stórum greiðslum 2011 og 2012, en það er háð verulegri óvissu. Komi ekki til annarrar fjármögnunar virðast því líkur á greiðslufalli ríkisins, fyrirtækja með ríkisábyrgð eða sveitarfélaga.“

Það er framtíðin sem Framsóknarflokkurinn ætlar að bjóða okkur upp á ef við göngumst ekki undir það samkomulag sem nú er hér fyrir framan okkur, og þá loksins mundu þeir félagar bölmóður og dómsdagur hafa rétt fyrir sér.