138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:25]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir framhaldsnefndaráliti 3. minni hluta fjárlaganefndar sem er að finna á þskj. 602 við þetta mikið rædda mál. Í okkar huga er ljóst að það frumvarp sem fjármálaráðherra lagði fram til breytinga á lögum sem Alþingi setti í ágúst varðar án vafa mestu þjóðarhagsmuni sem Alþingi Íslendinga hefur fjallað um í langri sögu sinni.

Samþykkt þessa frumvarps stríðir alvarlega gegn hagsmunum íslenska ríkisins og íslensku þjóðarinnar. Sú skoðun 3. minni hluta fjárlaganefndar byggir meðal annars á eftirfarandi:

Í fyrsta lagi fela skuldbindingarnar samkvæmt frumvarpinu í sér greiðsluskyldu sem hvorki byggist á lagaskyldu né niðurstöðu dómstóls. Í öðru lagi byggjast skuldbindingarnar á pólitískum afarkostum og þvingunum. Í þriðja lagi leikur vafi á um hvort frumvarpið samrýmist ákvæðum stjórnarskrár Íslands. Í fjórða lagi vegur það að fjárhagslegu sjálfstæði þjóðarinnar og fullveldi hennar. Í fimmta lagi er óljóst hversu miklar fjárskuldbindingar samningarnir fela í sér fyrir ríkissjóð. Í sjötta lagi er ríkisábyrgð samkvæmt frumvarpinu ótakmörkuð og ótímabundin. Í sjöunda lagi er efni frumvarpsins ekki í samræmi við hin umsömdu Brussel-viðmið. Í áttunda lagi eru vaxtakjör samkvæmt samningunum sem frumvarpið lýtur með öllu óásættanleg og mun verri kjör en nú þekkjast á lánsfjármörkuðum í sambærilegum samningum. Í níunda lagi felur skilyrðislaus greiðsluskylda vaxta í sér mikla efnahagslega áhættu fyrir þjóðarbúið. Í tíunda lagi eru þeir efnahagslegu fyrirvarar sem Alþingi samþykkti 28. ágúst sl. að engu orðnir. Í ellefta lagi eru þeir lagalegu fyrirvarar sem Alþingi samþykkti 28. ágúst sl. sömuleiðis að engu orðnir. Í tólfta lagi eru reglur um úthlutun eigna úr þrotabúi Landsbanka Íslands hf. ekki samkvæmt íslenskum lögum. Í þrettánda lagi er gengisáhætta samkvæmt samningunum gríðarleg og getur haft mjög alvarlegar efnahagslegar afleiðingar í för með sér fyrir íslenska ríkið. Í fjórtánda lagi er óljóst hvaða áhrif endurskoðun á innlánatryggingakerfi ESB mun hafa á skuldbindingar íslenska ríkisins. Í fimmtánda lagi hafa innlendir og erlendir sérfræðingar varað sterklega við samþykkt frumvarpsins. Í sextánda lagi hafa íslensk stjórnvöld látið undir höfuð leggjast að eiga viðræður á æðstu stigum við stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi og mistekist að halda uppi vörnum fyrir íslensku þjóðina. Í sautjánda lagi eru enn eru að koma fram vísbendingar um að öll gögn málsins hafi ekki verið lögð fram. Í átjánda lagi eru nýjar málshöfðunarleiðir gegn breskum stjórnvöldum sem bent hefur verið á hafa ekki verið kannaðar.

Með vísan til þessara átján liða telur 3. minni hluti fjárlaganefndar einboðið að vísa beri frumvarpinu frá með rökstuddri dagskrá, eins og kemur raunar fram í niðurlagi þess nefndarálits sem ég mæli hér fyrir.

Eins og ég gat um er það álit okkar að frumvarpið feli í sér alvarlega íhlutun í efnahagslegt sjálfstæði Íslendinga, sjálfstæði Alþingis Íslendinga og íslenskra dómstóla. Í húfi er sjálfsmynd Íslendinga og þjóðarstolt. Við meðferð fjárlaganefndar komu fram athugasemdir og upplýsingar sem fela í sér alvarleg og umdeild álitamál. Allir stjórnmálaflokkar á Alþingi hafa þó fram til þessa verið sammála um grundvallaratriði málsins. Engin lagaleg skylda, hvorki samkvæmt íslenskum né evrópskum rétti, hvílir á Íslandi gagnvart Bretlandi og Hollandi varðandi greiðslur þeirra fjárhæða sem þessar þjóðir hafa krafist með afar óbilgjörnum hætti að íslenskir skattgreiðendur ábyrgist. Með málatilbúnaði sínum fer því ríkisstjórnin fram á að íslenska þjóðin takist á herðar skuldbindingar án dóms og laga, skuldbindingar sem hún hefur aldrei undirgengist.

Icesave-frumvarpið sem nú er til umræðu á Alþingi varðar mikla þjóðarhagsmuni og í raun má segja að Íslendingar heyi nú harða baráttu fyrir sjálfstæði sínu. Fyrir því má færa skýr efnahagsleg rök en einnig og ekki síður þjóðréttarleg og lagaleg rök sem byggjast á því að samningarnir hafa verið gerðir á grundvelli pólitískra afarkosta og þvingana. Til allra óheilla hefur ríkisstjórn Íslands látið undan þessum þvingunum erlendra ríkja og skrifað undir samninga sem beinlínis vega að sjálfstæði íslensku þjóðarinnar. Því miður er full ástæða til að óttast að þessar gríðarlegu skuldbindingar muni stefna fjárhagslegu sjálfstæði þjóðarinnar í stórkostlega hættu. Ekki verður séð að þjóðin geti staðið undir þeim nema hér á landi verði annaðhvort mikill hagvöxtur á gildistíma samninganna, eða þá í hinu laginu með varanlegri lífskjaraskerðingu heillar kynslóðar Íslendinga ef hagvaxtarforsendur bresta.

Því miður hafa forustumenn ríkisstjórnarflokkanna, Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, ekki haft neitt samstarf eða leitað eftir neinni samstöðu með stjórnarandstöðuflokkunum við lausn þessa máls, hvorki innan Alþingis né utan. Það er miður, ekki síst í ljósi þess hversu mikilvægt það er í þessu máli að forustumenn allra stjórnmálaflokka snúi bökum saman og vinni saman að hagsmunum þjóðarinnar þegar að henni er sótt.

Að mati 3. minni hluta er frumvarpið um Icesave-samningana algerlega óásættanlegt í þeirri mynd sem það er lagt hér fram. Enda þótt ríkisstjórnin hafi fram til þessa brugðist því mikilvæga hlutverki sínu að vinna málstað Íslands stuðning hjá öðrum Evrópuþjóðum er nauðsynlegt að fela henni að taka málið upp við forustu Evrópusambandsins og fara fram á að hún hlutist til um sanngjarna lausn málsins sem hafi hliðsjón af því að löggjöf Evrópusambandsins hefur reynst meingölluð. Reynist það ómögulegt er augljóst að hafna á ríkisábyrgð í málinu og viðsemjendur Íslands verða þá að sækja kröfur sínar fyrir dómstólum hér á landi.

Málinu var vísað aftur til fjárlaganefndar eftir 2. umræðu og í samræmi við yfirlýsingu og samkomulag forseta Alþingis og formanna stjórnarandstöðuflokkanna samdi fjárlaganefnd um að skoðuð yrðu tiltekin 16 atriði við meðferð málsins milli 2. og 3. umræðu. Fjárlaganefnd óskaði í kjölfarið eftir áliti efnahags- og skattanefndar, utanríkismálanefndar og viðskiptanefndar á tilteknum atriðum auk þess sem m.a. var óskað álits bresku lögfræðistofunnar Mishcon de Reya á ákveðnum þáttum og lögfræðiálits um hvort frumvarpið stæðist ákvæði stjórnarskrár. Jafnframt var farið fram á að skuldastaða íslensks þjóðarbús yrði skoðuð og unnin yrði áhættugreining á efni Icesave-samninganna.

Ástæða er til að nefna að álit Mishcon de Reya um efni Icesave-samninganna er fyrsta erlenda sérfræðiálitið sem aflað hefur verið um þetta mál. Ríkisstjórnin hefur aldrei hlutast til um að efni þessara samninga sé rýnt og metið hvernig unnt sé að standa undir þeim skuldbindingum sem af samningunum leiðir. Allt fram til loka 2. umræðu um þetta mál hefur málaumleitunum af hálfu stjórnarandstöðu um að hlutlausir aðilar kæmu að málinu verið hafnað. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Það var ekki fyrr en á elleftu stundu að stjórnarmeirihlutinn lét undan sjálfsögðum óskum stjórnarandstöðunnar um að hlutlaus aðili væri fenginn að málinu. Hlýtur þessi málsmeðferð að sæta verulegri furðu þegar svo ríkir þjóðhagslegir hagsmunir eru undir.

Í áliti Mishcon de Reya kemur fram veruleg gagnrýni á efni þessara samninga. Þar kemur m.a. fram að allmörg ákvæði eru óskýr og ósamrýmanleg ákvæðum íslenskra laga eða lagalegu fyrirvaranna í lögum nr. 69/2009. Þá eru gerðar alvarlegar athugasemdir við allnokkur ákvæði þar sem virðist halla óeðlilega á Íslendinga. Lögmannsstofan tekur fram að Icesave-samningarnir séu hvorki skýrir né sanngjarnir og að ákveðnir hlutar þeirra virðast byggjast á misskilningi. Þá telur stofan möguleika á því að fresta samþykkt frumvarpsins og athuga hvort ekki sé hægt að leita samninga að nýju við Breta og Hollendinga. Hið minnsta sé þörf á að skýra merkingu og áhrif vissra hugtaka samninganna sem um ríkir bæði óvissa og ósamræmi.

Í málflutningi stjórnarflokkanna hefur því verið haldið fram að þeir lagalegu fyrirvarar sem Alþingi setti með lögum nr. 96/2009 hafi nú verið teknir upp í viðaukasamningana að mestu leyti og því sé óþarft að hafa þá í lögunum. Þriðji minni hluti átelur slíkan málflutning og bendir á að fráleitt sé að bera saman lagaákvæði sem takmarki ríkisábyrgð á lánum og einkaréttarlegan samning um lánin. Þeir fyrirvarar sem færðir voru í lög eiga við um ríkisábyrgð á lánunum meðan Icesave-samningarnir eru í grunninn samningar um lán til íslenska tryggingarsjóðsins. Hér er því um að ræða í málflutningi stjórnarflokkanna umsnúning á efninu og réttarstöðunni. Þá er íslenska ríkið ekki aðili að breska uppgjörssamningnum eins og breska lögmannsstofan hefur bent á, og getur það orðið til þess að ákveðnir fyrirvarar sem færðir eru í samningana og felldir brott úr lögunum verði að engu.

Í samræmi við skilyrði stjórnarandstöðuflokkanna og samkomulag í fjárlaganefnd var frekari gagna óskað vegna málsins. Í því sambandi vil ég sérstaklega nefna atriði sem lýtur að skýrslu sem breska lögfræðistofan Mishcon de Reya, sem margoft hefur verið nefnd í umræðunni nú síðustu daga um þetta mál, vann. Þar háttar málum þannig til að lögfræðistofan skilaði mjög ítarlegu áliti 19. desember sl. upp á 86 blaðsíður. Þar er að finna umsögn um Icesave-samningana, viðbótarsamninga við Breta og Hollendinga og frumvarpið og stöðu Íslands.

Í skýrslu Mishcon de Reya, á bls. 7 í tölulið 13, kemur fram að þann 11. mars 2009 hafi íslenska samninganefndin óskað eftir því við lögfræðistofuna að kanna ákveðin atriði varðandi Icesave-deiluna til undirbúnings fundar utanríkisráðherra Íslands með David Miliband, utanríkisráðherra Bretlands. Þann 26. mars skilaði lögfræðistofan íslensku samninganefndinni niðurstöðum sínum. Þær niðurstöður er ekki að finna í gögnum fjárlaganefndar, hvorki í opinberum gögnum né þeim sem eru undir trúnaði.

Því var þess óskað af hálfu þess er hér stendur á fundi fjárlaganefndar 22. desember síðastliðinn að þessi gögn yrðu lögð fram og var því heitið að svo yrði gert. Það er mjög miður að þessar upplýsingar skuli ekki hafa skilað sér til fjárlaganefndarmanna og þingsins fyrir upphaf þessarar umræðu. Það er með ólíkindum að svo skuli vera. Það er raunar sérstakt að upplifa það í tengslum við þessa bresku lögfræðistofu að þetta er í annað sinn sem gerðar eru athugasemdir við að frá þeim skili sér ekki gögn til Alþingis. Fram á það var farið í sumar að Alþingi og fjárlaganefnd yrði skilað skýrslu sem hæstv. utanríkisráðherra átti að hafa borist og að lokum kom hún fram. Sú skýrsla var dagsett 29. mars. Þá fundust gögn í fjármálaráðuneytinu í sumar. Enn óskum við eftir gögnum frá þessari sömu stofu, kynningu fyrir samninganefnd Íslands sem unnin var að beiðni þessarar samninganefndar samkvæmt fundi 11. mars. Kynningin fór fram 26. mars. Það er sú kynning sem óskað hefur verið eftir að fá til fjárlaganefndar og það er með hreinum ólíkindum að menn skuli ekki geta lagt þessar upplýsingar fram því að ég veit það að þær liggja fyrir. Það er skýlaus krafa að þessar upplýsingar verði lagðar á borð fjárlaganefndar. Ég treysti því eðlilega að menn geri svo.

Á 45. fundi fjárlaganefndar sem haldinn var 22. desember var málið tekið úr nefnd rétt fyrir klukkan eitt og við það tækifæri óskuðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd eftir því að bókað yrði eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Sjálfstæðismenn í fjárlaganefnd mótmæla harðlega því verklagi sem viðhaft er við yfirferð Icesave-frumvarpsins. Mjög mikilvæg gögn hafa verið að berast nefndinni fram á síðustu stundu — mitt í jólaönnum þingsins — og engin efnisleg meðferð hefur farið fram. Gert var samkomulag milli forseta og formanna stjórnarandstöðuflokkanna um meðferð málsins milli umræðna. Í því samkomulagi fólst að aflað yrði ákveðinna gagna. Nú hefur meiri hluti fjárlaganefndar ákveðið að taka málið út úr nefndinni án þess að viðeigandi gögn, m.a. frá IFS, hafi borist. Að mati fulltrúa Sjálfstæðisflokksins er hér um að ræða svik við það samkomulag sem gert var. Hér á Alþingi hafa farið fram stöðugar umræður og atkvæðagreiðslur um grundvallarbreytingar á skattkerfi landsmanna auk fjárlagafrumvarps næsta árs, fyrir utan önnur viðfangsefni. Ofan í þetta er fulltrúum í fjárlaganefnd ætlað að taka afstöðu til þessa gríðarlega mikla hagsmunamáls sem Icesave-málið er. Það er útilokað fyrir alþingismenn í þessum önnum að kynna sér til hlítar þessi gögn sem lögð hafa verið fram og því síður hafa þeir tækifæri til umræðu um efnislega meðferð og afgreiðslu. Engin efnisleg rök hafa verið færð fram um það að nauðsynlegt sé að ljúka málinu nú. Að mati sjálfstæðismanna í fjárlaganefnd er ábyrgðarlaust að halda svona á hagsmunum Íslendinga í nútíð og framtíð og vísa ábyrgð á þessari málsmeðferð á hendur ríkisstjórn og meiri hluta fjárlaganefndar.“

Frá upphafi hefur þess verið gætt af íslenskum stjórnvöldum að ítreka þá lagalegu óvissu sem er um það hvort íslenska ríkið skuli ábyrgjast innstæðutryggingarkerfi sem það sannanlega kom á fót í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 94/19/EBE um innlánatryggingarkerfi. Í áliti Mishcon de Reya er farið á greinargóðan hátt yfir þær skyldur sem tilskipunin leggur á aðildarríki og er það tekið fram að með henni sé ekki kveðið beinum orðum á um að stjórnvöld aðildarríkja skuli tryggja greiðslu hinnar samræmdu innstæðutryggingar til innstæðueigenda, þessa má sjá stað á bls. 61 í skýrslunni. Ítarlega er farið yfir orðalag tilskipunarinnar, viðeigandi ákvæði hennar og dómaframkvæmd Evrópudómstólsins og komist að þeirri niðurstöðu að það sé augljóslega lagaleg og raunveruleg óvissa um hvort íslensk stjórnvöld séu á nokkurn hátt skuldbundin því að tryggja greiðslur lágmarkstryggingar þegar innstæðutryggingarsjóðurinn getur ekki greitt. Þá er bent á að athugasemdir breska fjármálaeftirlitsins í nýlegu skjali þar séu í samræmi við að það aðildarríki beri ekki ábyrgð á innstæðutryggingarkerfi sínu. Þá bendir lögmannsstofan Mishcon de Reya á að margoft hefur komið fram að tilskipunin og innstæðutryggingarkerfið sem hún kveður á um var aldrei ætlað til þess að mæta algjöru bankahruni. Við viljum því árétta að það sem við höfum haldið fram við sjálfstæðismenn í fjárlaganefnd, að við höfum ávallt haldið þessu sjónarmiði á lofti sem og bent á sök Evrópusambandsins sjálfs vegna þessa „galla“ í Evrópulöggjöfinni.

Undir þessa skoðun tekur fyrrverandi forsætisráðherra Geir H. Haarde og fyrrverandi utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir í minnisblöðum til utanríkismálanefndar. Þar kemur glöggt fram að af hálfu íslenskra stjórnvalda í tíð fyrri ríkisstjórnar var umtalsverðri orku og tíma varið í að kynna sjónarmið Íslands og árétta þá lagalegu óvissu sem væri í málinu. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir kveður fast að orði þegar hún lýsir atburðarásinni haustið 2008 en hún telur að hvorki orð né gerðir fyrri ríkisstjórnar hafi bundið hendur stjórnvalda í samningaviðræðum.

Líkt og að framan greinir hefur 3. minni hluti þegar látið athugasemdir sínar varðandi einstök ákvæði samninganna, breytingar viðaukasamninganna og lagalega fyrirvara Alþingis, samanber lög nr. 96/2009. Athugasemdir Mishcon de Reya við efni samninganna eru í fullu samræmi við þann málflutning sem 3. minni hluti hefur haft uppi frá því að málið kom fyrst fram.

Í áliti stofunnar kemur fram að allmörg ákvæði samninganna séu óskýr og ósamrýmanleg ákvæðum íslenskra laga eða lagalegu fyrirvaranna í lögum nr. 96/2009, samanber m.a. athugasemd stofunnar um hættu á að Ísland verði bundið af ríkisábyrgðinni þrátt fyrir að dómstóll kvæði upp úr um að ríkisábyrgð væri ekki fyrir hendi samkvæmt tilskipuninni. Meðal annarra athugasemda stofunnar eru að leynd hvíli á breska uppgjörssamningnum, en við höfum í 3. minni hluta alla tíð gagnrýnt harðlega þá leynd sem hvílt hefur á gögnum og skjölum málsins. Í áliti Mishcon de Reya kemur einnig fram að það sé umdeilanlegt að trúnaður ríki á skjali þar sem samningsskilmálar komi fram. Þá eru gerðar alvarlegar athugasemdir við allnokkur ákvæði sem virðast halla óeðlilega á Íslendinga og undir lok álitsins er meira að segja gengið svo langt að segja að Icesave-samkomulagið eða a.m.k. ákveðnir hlutar þess virðast byggjast á misskilningi. (Utanrrh.: Miðað við tilgátur sem þeir gefa sér.) Miðað við tilgátur sem þeir gefa sér, hæstv. utanríkisráðherra.

Ég vil þó fjalla hér um í nokkrum orðum um óvissuna um fjárhæð ríkisábyrgðarinnar. Þar gerum við í 3. minni hluta alvarlegar athugasemdir.

Í áliti Mishcon de Reya er bent á að greiðslur til innstæðueigenda í Bretlandi eru framkvæmdar af breska tryggingarsjóðnum og fara eftir reglum hans en ekki þess íslenska. Þá bendir stofan á að samkvæmt ákvæði í breska samningnum samþykkti íslenski tryggingarsjóðurinn að mótmæla ekki reglum sem geta haft áhrif til hækkunar á þeirri upphæð sem hann er ábyrgur fyrir, t.d. ef breski sjóðurinn breytir reiknireglu við útreikning til innstæðueigenda frá því sem íslenski sjóðurinn hefði notað. Slík útvíkkun á fjárhagslegri ábyrgð tryggingarsjóðsins mundi eiga við ríkisábyrgðina einnig þar sem hún er samkvæmt lögunum bundin við höfuðstól lánanna eins og þau standa að sjö árum liðnum en ekki við ákveðna fjárhæð. Samkvæmt þessu er því allsendis óvíst hversu há sú fjárhæð er sem ríkið gengst í ábyrgð fyrir. Verði frumvarpið samþykkt og efnahagslegu fyrirvararnir þar með teknir úr sambandi hefur íslenska ríkið samkvæmt þessum skilningi misst alla stjórn á heildarskuldbindingunni. Að mati 3. minni hluta er ófært að skilja við þetta mál þannig að þessi álitaefni séu ekki rannsökuð ofan í kjölinn. Hér er um að ræða enn einn vitnisburðinn um það að á þessa samninga sé ekki hægt að fallast.

Í nefndaráliti 3. minni hluta fjárlaganefndar fyrir 2. umræðu á þskj. 258 eru raktar þær breytingar á lögum sem frumvarpið leggur til, auk þess sem bornir eru saman þeir fyrirvarar sem í lögunum eru og viðaukasamningarnir við Breta og Hollendinga. Ég leyfi mér í máli mínu að vísa til þeirrar umfjöllunar hvað þessi atriði áhrærir.

Í lögfræðilegu áliti sínu bendir Mishcon de Reya m.a. á að þó svo að í viðaukasamningnum segi að umboðsmenn breska fjármálaráðuneytisins staðfesti að þeim sé kunnugt um að Tryggingarsjóður innstæðueigenda kunni að leita úrskurðar þar til bærra úrskurðaraðila um að kröfur hans á hendur búi Landsbankans gangi framar öðrum kröfum vegna sömu innlána, eigi hvorki breska fjármálaráðuneytið né Ísland hlut að breska uppgjörssamningnum og telur stofan því ólíklegt að breskir dómstólar muni taka tillit til lagalegra áhrifa slíkrar niðurstöðu þar sem hún mundi einungis eiga við lánasamningana svo breytta miðað við viðaukasamninginn. Af þessu má ljóst vera að með því að fella fyrirvarann brott úr lögunum, líkt og frumvarpið leggur til, og gera þess í stað viðbót við breska lánssamninginn yrði fyrirvarinn í reynd að engu orðinn. Ísland væri enn bundið ríkisábyrgðinni þrátt fyrir að dómstóll kvæði upp niðurstöðu sem væri í þágu landsins og þess efnis að samkvæmt tilskipuninni væri engin ríkisábyrgð fyrir hendi.

Í áliti Mishcon de Reya er gerð athugasemd við uppgjörsskilmála samninganna og að ein krafa verði að tveimur jafnstæðum kröfum, enda sé gert ráð fyrir að greiðslur vegna eigna úr búi Landsbankans gangi að jöfnu til íslenska innstæðutryggingarsjóðsins og til Bretlands eða Hollands. Lögmannsstofan telur að sú regla að hver innstæða sé ein, óskipt krafa sé slík grundvallarlagaregla að hún hljóti jafnframt að gilda í íslenskum gjaldþrotarétti, enda breytist ekki eðli kröfunnar gagnvart Landsbanka Íslands hf.

Þetta er sá skilningur sem 3. minni hluti hefur haldið fram í málinu frá upphafi og bendir á að hinn svokallaði Ragnars H. Halls-fyrirvari var settur til að leiðrétta þetta og tryggja að greiðslur vegna eigna úr búi Landsbankans færu fram eftir íslenskum lögum. Tilraunin til að flétta þennan fyrirvara inn í viðaukasamningana telur 3. minni hluti ekki hafa tekist sem skyldi og að nauðsynlegt sé að halda honum í lögum. Þetta er einnig í samræmi við þá afstöðu sem Ragnar H. Hall lýsti til málsins á fundi í fjárlaganefnd. Rétt er að minna á að þessi fyrirvari var, ásamt lagalegum áskilnaði og efnahagslegum skilyrðum, sá fyrirvari sem hvað mest var barist fyrir í sumar þegar Alþingi greip til sinna ráða til varnar hagsmunum þjóðarinnar. Þessi fyrirvari er nú kominn út í veður og vind.

Það er einnig ástæða til að staldra við afstöðu Mishcon de Reya og breska lögmannsins Matthews Collings um friðhelgisákvæði samninganna. Mishcon de Reya bendir á að þrátt fyrir að viðaukasamningarnir taki nokkurt tillit til þeirra fyrirvara sem Alþingi setti við friðhelgisákvæði samninganna sé enn óljóst hvaða eignir séu undanþegnar aðför. Þá sé túlkunaratriði hvað séu í raun náttúruauðlindir og það sé ekki skýrt nánar. Matthew Collings lýsir mikilli undrun á því að sjálfstæð þjóð skuli hafa undirgengist slíkt afsal á friðhelgi og þarna er um að ræða, en hann orðar það svo, með leyfi forseta:

„Ég hefði haldið að þarna væri á ferðinni meira grundvallaratriði en deila um það að hvaða marki friðhelgi hafi verið afsalað, eða hvort rétt sé að afsala henni yfir höfuð. Þarna er um að ræða sjálfsmynd Íslendinga og þjóðarstolt.“

Því miður er engu við þessi orð að bæta.

Það kemur enn fremur fram í lögfræðiáliti Mishcon de Reya og Matthews Collings að vísað er til þess að málshöfðun Kaupþings banka hf. gegn breska fjármálaráðuneytinu hafi ekki borið árangur. Í áliti sínu bendir lögmaðurinn hins vegar á að hann sé reiðubúinn til þess að veita ráðgjöf um nýjar málshöfðunarleiðir gegn breskum stjórnvöldum sem valda mundu ríkisstjórn Bretlands verulegu hugarangri og vandræðum. Við meðferð málsins í fjárlaganefnd gafst ekki tækifæri til þess að fara yfir það í hverju slíkar málshöfðunarleiðir kynnu að felast þó ríkar ástæður væru fyrir hendi.

Um leið og meiri hluti fjárlaganefndar afgreiddi frumvarpið út úr nefndinni 22. desember sl. var lagt fram mat Seðlabanka Íslands á skuldastöðu þjóðarbúsins. Samkvæmt mati bankans verða skuldir okkar í árslok 2010 340% af vergri þjóðarframleiðslu. Jafnframt kemur þar fram að skuldin vegna Icesave-reikninganna er nú metin um 800 milljarðar kr., það er umtalsvert meira en nefnt hafði verið fram til þessa. Það þarf vart að taka það fram að þetta mat Seðlabanka Íslands var ekki tekið til efnislegrar umræðu í nefndinni.

Þá er ástæða til að benda á álit Daniels Gros, en hann færir veigamikil rök fyrir því að rangt sé að hafa fasta vexti 5,5% í þessum samningum, auk þess sem hann gagnrýnir þá niðurstöðu að viðsemjendur Íslendinga líti á þessa samningsgerð sem hvern annan viðskiptagerning þar sem þeir hagnast verulega á vaxtamun. Matthew Collings gerir einnig alvarlegar athugasemdir við þessa háu föstu vexti í skorinorðu áliti sínu.

Ég vil einnig geta þess að á Þorláksmessu barst svo álitsgerð frá IFS Greiningu, sem meiri hluti fjárlaganefndar hirti ekki um að bíða eftir, þótt Alþingi hafi sjálft farið fram á að sú vinna yrði unnin. Lýsir það makalausri vanvirðingu við tíma og vinnu fólks í landinu. Í þessu áliti kemur fram, eins og komið hefur fram í umræðunni í dag, að um 10% líkur séu á gjaldþroti Íslands. Að sjálfsögðu liggur svo mikið á að keyra þetta mál í gegnum þingið að óþarfi að staldra við og velta fyrir sér á hvaða vegferð við erum undir forsæti ríkisstjórnarinnar. Hér er verið að véla um framtíðarhagsmuni íslenskrar þjóðar, ófæddra Íslendinga, og er það gert að lítt athuguðu máli þar sem menn loka hreinlega augunum fyrir staðreyndum. Þriðji minni hluti á varla til nógu sterk orð til að lýsa vanvirðu sinni á þessum vinnubrögðum. Það hefur enginn leyfi til að ganga svona fram þegar undir eru ríkir þjóðhagslegir hagsmunir um langa framtíð.

Við teljum ljóst af því sem að framan greinir að þeir fyrirvarar sem settir voru í lögin í ágústlok yrðu, með frumvarpinu, verði það samþykkt óbreytt, og viðbótarsamningum við Breta og Hollendinga, að engu orðnir. Það hefur ekki verið gefinn neinn tími í fjárlaganefnd til að fara yfir ítarlegar álitsgerðir frá m.a. Mishcon de Reya og IFS Greiningu um efni þessara samninga. Enn virðist ríkisstjórnin leyna trúnaðargögnum um þessa samningsgerð sem telja verður hreint ábyrgðarleysi, ekki síst þegar um er að ræða mál sem varðar þjóðarheill. Flestir þeir sérfræðingar sem fengnir hafa verið á fund nefndarinnar gagnrýna þessa samningsgerð harðlega. En illu heilli hefur ekki verið hlustað á þá og raunar hefur fjármálaráðherra þjóðarinnar lagt sig fram við að gera lítið úr þeim álitsgerðum sem fengist hafa þegar hann ætti þvert á móti að fagna því þegar menn taka upp málstað Íslendinga.

Þessir samningar, eins og þeir standa nú, vega að sjálfstæði þjóðarinnar. Þeir stefna tækifærum ungra Íslendinga í voða og að mati 3. minni hluta hefur Alþingi Íslendinga á árinu 2009 ekki leyfi til að binda hendur ófæddra Íslendinga á jafnveikum grunni og hér er gert. Þetta eru stórhættulegir gjörningar sem að okkar mati má alls ekki samþykkja. Á fyrri öldum … (Gripið fram í.) Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, ég legg það ekki í vana minn að kalla fram í fyrir þér í ræðu og ég vænti þess sama af þér. Á fyrri öldum stóðu Íslendingar saman gegn ofríki erlendra þjóða. Því er vart hægt að trúa að nú ætli ráðamenn þjóðarinnar að leggjast flatir fyrir slíku valdi. Nú reynir á þingheim. Það eina rétta í þessari ömurlegu stöðu er að þingmenn sameinist um að verja hagsmuni og sjálfstæði íslensku þjóðarinnar gegn þessum samningum.

Þriðji minni hluti leggur til að þessu máli verði vísað frá og úrslitatilraun verði gerð til þess að verja hagsmuni þjóðarinnar. Augljóst er að ekki er hægt að fara í samningaumleitanir við þessar þjóðir nema að því komi formenn allra flokka á Alþingi. Verði þessi tillaga felld er það eindregin afstaða 3. minni hluta að hafna með öllu þessu frumvarpi eins og það liggur fyrir. Viðsemjendur okkar verða þá að láta sér það lynda að fara með ágreining þennan í eðlilegan lagalegan farveg fyrir íslenskum dómstólum. Þeirri niðurstöðu munum við Íslendingar að sjálfsögðu hlíta.

Í ljósi alls framangreinds, virðulegi forseti, leggur minni hlutinn til að frumvarpinu verði vísað frá með svofelldri rökstuddri dagskrá:

Með vísan til framangreinds samþykkir Alþingi að vísa málinu frá og taka fyrir næsta mál á dagskrá.

(Forseti (UBK): Forseti vill minna hv. þingmenn á að ávarpa hv. þingmenn á réttan hátt.)