138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:56]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir hans ágætu efnismiklu ræðu. Hún var líka málefnaleg þannig að það er ánægjulegt að einhverjir stjórnarþingmenn hafi heyrt hana. Mig langar að spyrja hv. þingmann út í þau gögn sem hann minntist á að hefðu ekki borist fjárlaganefnd eða sem fjárlaganefnd hefði ekki séð og væntanlega ekki aðrir þingmenn. Ef ég man rétt vitnar hann til lögmannsstofunnar Mishcon de Reya og hann nefndi einnig einhver skjöl frá 11. mars eða þeim tíma sem ekki hafa verið sýnd þingheimi. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann búist við því að fá þessi skjöl í hendurnar og hvort hann muni ganga eftir því við forseta að hann beiti sér fyrir því. Það er vitanlega ótækt, frú forseti, að við séum hér að því er virðist á lokaspretti þessarar umræðu ef enn þá eru gögn í skúffum sem þingmenn hafa ekki fengið að sjá. Þá verðum við að sjálfsögðu að fá þau upp á borðið. En ef þetta er á misskilningi byggt þarf líka að ganga frá því þannig að við séum ekki með það hangandi yfir okkur.