138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:58]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það má ráða af orðum hv. þingmanns að hann viti í það minnsta að þessi gögn eru til og ég tek undir orð hans um að þau hljóta að verða lögð fyrir okkur þingmenn í dag, því að það er vont að halda þessari umræðu áfram ef einhver gögn liggja enn þá óskoðuð. Margoft er búið að segja að ekkert nýtt hafi komið hér fram en eitthvað á eftir að ræða.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í minnisblað eða greinargerð fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, og formanns Samfylkingarinnar á þeim tíma. Nú er ýmislegt fróðlegt í minnisblaði hennar. Þar á meðal er sagt að í raun og veru hafi verið búið að núllstilla það samkomulag sem hér er gjarnan vísað í, svokallað MOU-blað, þegar Brussel-viðmiðin voru gerð. Tekur hv. þingmaður undir það að borðið hafi verið orðið hreint fyrir ríkisstjórnina sem þá var og að núverandi ríkisstjórn (Forseti hringir.) hefði getað samið á þeim nótum sem henni sýndist?