138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:59]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi þau gögn sem um ræðir. Það kemur fram í erindi frá Michael Stubbs, sem er lögmaður hjá þessari umræddu lögfræðistofu, Mishcon de Reya, í bréfi sem hann sendir til fjárlaganefndar 23. desember að hann vitnar til þess fundar sem hér um ræðir. Þar ítrekar hann ákveðin atriði sem koma fram í skýrslunni sem er grunnur þeirrar beiðni sem fram kom.

Varðandi yfirlýsingar fyrrverandi utanríkisráðherra tek ég alveg undir að samþykkt hinna umsömdu viðmiða kom málum úr þeim vítahring sem þau voru komin í í samskiptum Íslendinga við aðrar þjóðir. Það kemur fram og er rækilega undirstrikað í áliti Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur að skilningur hennar er sá, og sá skilningur hefur raunar komið fram í töluðu og rituðu máli fleiri aðila innan úr stjórnkerfinu, að núverandi stjórnvöld hafi tekið við þessu máli eins og það var vaxið (Forseti hringir.) og þau hafi haft fullt frelsi til að gera á ferlinu allar þær breytingar sem þeim hugnuðust.