138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:05]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það mátti skilja á andsvari hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar að hann væri tilbúinn til þess að taka þá áhættu að fara með málið fyrir dómstóla upp á 600–700 milljarða kr. áhættu fyrir íslenska þjóð. Það er ágætt að það liggi fyrir. Ég er hins vegar ósammála því.

Fram hefur komið í fjölmörgum álitum, fyrir t.d. efnahags- og skattanefnd, að mjög margt hangir á þessari Icesave-spýtu. Endurskoðun AGS, lán frá Norðurlöndunum, endurfjármögnun erlendra lána ríkisins, (Gripið fram í.) lánshæfismat ríkisins, þ.e. staða opinberra — (Gripið fram í.) Þetta er komið að einhverju leyti. Fyrsta endurskoðun er komin í AGS vegna þess að við lofuðum að ganga frá þessu máli fyrir áramót en nú ætlar stjórnarandstaðan að setja efnahagslega uppbyggingu landsins í uppnám. [Frammíköll í þingsal.] Ég spyr hv. þingmann, og mig langar til þess að fá að klára spurninguna á mínum takmarkaða tíma: Það er alveg ljóst að efnahagslegar afleiðingar af Icesave eru þó nokkrar en verða ekki efnahagslegar afleiðingar miklu mun meiri ef við frestum málinu enn og setjum það í uppnám? (Gripið fram í.)