138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:08]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Icesave núvirt er væntanlega 15–20% af okkar skuldum. Ég tel miklu mikilvægara fyrir okkur að hafa áhyggjur af 80 prósentunum og hvernig við ætlum að endurfjármagna stóra gjalddaga ríkisins á næstu tveimur, þremur árum. Það skiptir öllu máli því komi til greiðslufalls erum við í verulegum vandræðum, bæði með okkar ríkisrekstur og ekki síður fyrirtækin í þessu landi. Þá áhættu vil ég ekki taka. Ég tel að framtíðin velti á þeirri viðspyrnu, á viðbrögðum okkar við núverandi stöðu og þar gegnir Icesave-málið lykilhlutverki, að ljúka því máli og koma okkur af stað aftur. Þess vegna tek ég ábyrga afstöðu þótt ég vildi gjarnan vera á móti Icesave vegna þess að þetta er mjög vont mál sem við sitjum uppi með. Við verðum samt að leysa það. Ábyrgir stjórnmálamenn horfa á heildarmyndina og segja: Það er betra að taka á sig þessa skuldbindingu til að losna við stærri skuldbindingu og til þess að geta a.m.k. staðið við okkar skuldbindingar.