138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:09]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sit ekki undir ásökunum um að vera óábyrgur þingmaður og ég vænti þess að hv. þingmaður leiðrétti það við gott tækifæri. Við eigum ekki að ræða hlutina þannig. Við eigum að vinna í þessu öll af bestu samvisku, hvar svo sem við stöndum í flokki.

Eftir stendur spurningin um hvenær þetta kemur til greiðslu og hvernig við ætlum að mæta því. Það er vissulega rétt sem kemur fram í máli hv. þingmanns að það eru erfið ár fram undan, alveg hárrétt. Á það var bent í umræðu hér að það hefur ekkert stöðvað fyrirgreiðslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eða lána frá Norðurlöndum. Þetta gengur allt, þetta er að koma, væntanlega undir þeim formerkjum að loforð liggi fyrir um að afgreiða Icesave-málið. Ég hef aldrei talað fyrir því að kasta því út í ystu myrkur. Ég hef reynt að tala fyrir því að leita annarrar niðurstöðu en þeirrar sem hér liggur fyrir en ég er alls ekki að víkja mér undan því að takast á við þessa skuldbindingu. Samningarnir sem fyrir liggja eru að mínu viti algerlega óásættanlegir og á þeim byggir frumvarpið. Það er það sem málið snýst um.