138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:10]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir ágæta ræðu hér áðan. Ég ætla svo sem ekki að fara mikið efnislega í það sem kom fram í ræðunni, fátt kom á óvart hvað það varðar. Mig langar þó að nefna tvennt eða þrennt. Í fyrsta lagi hvort hv. þm. Kristján Þór Júlíusson gæti staðfest það hér úr þessum ræðustól að minni hluta fjárlaganefndar hafi verið boðið að fresta því að taka málið út úr nefnd og bíða eftir áliti IFS Greiningar áður en það yrði tekið út úr nefnd. Ef ég man rétt var það gert en því hafnað af minni hluta fjárlaganefndar sem vildi taka það út deginum fyrr. (Gripið fram í.) Ég vil athuga og beina því til hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar hvort hann geti staðfest að svo hafi verið.