138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:15]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Fyrir sjö árum voru tveir bankar í eigu þjóðarinnar einkavinavæddir, þ.e. Landsbanki Íslands og Búnaðarbankinn. Markmiðið með vinavæðingunni var eins og svo glögglega kom fram á þeim tíma „að leysa úr læðingi krafta einkaframtaksins“ eins og sagt var þá úr þessum ræðustól. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það hér hvernig til tókst eða hvert kröftum einkavina þáverandi ríkisstjórnar var veitt og hvernig þeir nýttust þjóðinni þegar upp var staðið. Í kjölfar einkavinavæðingarinnar hófst nýr kafli í sögu þjóðarinnar sem kenndur hefur verið við útrásina miklu, þegar litla Ísland undir forustu útrásarvíkinga þóttist geta kennt öðrum hvernig ætti að stunda viðskipti úti í hinum stóra heimi. Það fór eins og það fór og á aðeins sex árum náðu einkavinirnir sem keypt höfðu Landsbankann á 11 milljarða kr. að steypa honum og þjóðinni í ævintýralegar skuldir sem námu þúsundum milljarða kr., fyrir utan það að hafa svo þegar betur var að gáð aldrei greitt þjóðinni að fullu fyrir bankann. Þessi saga er þekkt og kunn hverjum Íslendingi sem vita vill og hennar verður lengi minnst í sögu þessarar þjóðar. Þó er margt enn ósagt og enn á margt eftir að koma upp á yfirborðið í tengslum við hrun íslenska efnahagslífsins.

Tengsl stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna við útrásartímann eru augljós en óuppgerð að stærstum hluta. Þar bera þáverandi stjórnarflokkar, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, mesta ábyrgð. Þeir skópu það umhverfi sem einkavinunum var leyft að starfa við og þeir mótuðu leikreglurnar og gáfu tóninn. Úr þessum ræðustól voru sungnir útrásarsöngvar og héðan bárust háværustu húrrahrópin og í þessum sal var að finna æstustu aðdáendur einkavinavæðingarinnar, útrásarinnar og alls þess sem að lokum varð Íslandi að falli.

Saga Icesave-reikninganna er samofin einkavinavæðingu bankanna. Hinn einkavinavæddi Landsbanki stofnaði árið 2005 útibú í Bretlandi og tveimur árum síðar annað eins útibú í Hollandi. Í kjölfar vaxandi erfiðleika Landsbankans við að endurfjármagna sig hóf bankinn síðan innlánastarfsemi í Bretlandi þar sem lofað var háum vöxtum, hærri en sparifjáreigendum höfðu boðist annars staðar. Á síðasta ári, aðeins nokkrum mánuðum fyrir hrunið, hóf Landsbankinn svo sams konar innlánsviðskipti í Hollandi, þar sem almenningi þar í landi var lofað háum vöxtum á sparifé sitt. Þetta var í báðum löndum gert undir nafninu Icesave og tekið fram að reikningarnir væru á ábyrgð íslenska tryggingarsjóðsins sem íslenska ríkið bæri ábyrgð á og áhætta innlánseigenda því lítil. Þegar Landsbankinn féll svo á hliðina í október í fyrra hafði hann náð að safna inn á Icesave-reikninga sína í Bretlandi og Hollandi frá almenningi í þessum löndum upphæðum sem námu vel á annað þúsund milljarða íslenskra króna.

Þetta er í stórum dráttum saga þess ljóta máls sem Icesave-reikningar Landsbanka Íslands eru og við þetta mál höfum við glímt allt frá því að efnahagshrunið átti sér stað hér á landi fyrir meira en ári.

Forseti. Það er nauðsynlegt að rifja þetta hér upp, nú þegar komið er að því að ljúka málinu hér á Alþingi, því það hefur viljað gleymast í umræðunni að málið á sér ljóta sögu sem hefur ekkert með lausn þess að gera eða þá sem fengu umboð frá þjóðinni til að leysa það.

Í byrjun sumars voru undirritaðir samningar á milli Íslands og Bretlands og Hollands um lausn Icesave-málsins. Icesave-samningarnir eru lánasamningar um greiðslu þeirra skulda sem féllu á Ísland vegna Icesave-útibúa Landsbanka Íslands í Bretlandi og Hollandi. Samningarnir eru til fimmtán ára og þarf hvorki að greiða afborganir né vexti af lánunum fyrstu sjö ár samningstímans. Greitt verður inn á höfuðstól skuldanna með eignum Landsbankans sem í upphafi voru taldar standa undir allt að 75% skuldanna, en eru nú taldar munu ná að greiða niður um 90%. Vart þarf að hafa mörg orð um hversu mikilvægt það er að við Íslendingar fáum þetta svigrúm til að safna vopnum okkar hér heima í friði fyrir ágangi erlendra kröfuhafa. Þann tíma þarf að nýta vel til að endurreisa íslenskt efnahagslíf og koma samfélaginu aftur á fæturna. Hvenær sem er á samningstímanum geta Íslendingar greitt inn á lánið eða greitt það upp ef betri kjör bjóðast en kveðið er á um í samningnum.

Reyndar verður að teljast frekar ólíklegt að betri kjör bjóðist á næstu árum en þau sem samningamönnum Íslands tókst að knýja fram í samningunum um Icesave. Það náðist að semja um 125 punkta álag ofan á 4,29% fasta hámarksvexti, eða samtals 5,54% vexti, sem var með því lægsta ef ekki það lægsta sem sést hefur í lánasamningum milli landa að undanförnu. Seðlabanka Íslands var falið það af fjárlaganefnd að finna betri kjör á sambærilegum lánum á milli annarra landa, en það hefur ekki gengið eftir. Þau lán sem teljast geta sambærileg þessu eru hins vegar öll með hærri vöxtum og/eða með styttri lánstíma. Til samanburðar má geta að lán Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til Íslands er til sjö ára með 275 punkta álagi ofan á breytilega grunnvexti. Reiknað yfir á fasta vexti eru kjör á lánum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins því óhagstæðari fyrir Íslendinga heldur en Icesave-samningarnir eru. Lán Norðurlandanna til Íslands eru til 12 ára með 275 punkta álagi sömuleiðis ofan á breytileg vexti. Umreiknað í fasta vexti ríflega prósenti hærri heldur en vaxtakjörin eru á Icesave-samningunum.

Enn sem komið er hefur enginn af öllum þeim sem hafa tjáð sig um málið eða veitt Alþingi álit sitt á því getað bent á möguleika til að fá hagstæðari kjör á samningunum. (Gripið fram í.) Það hefur ekki verið gert. Það þýðir þó ekki að gagnrýnt hafi verið hvernig lánakjörin eru, að vextir séu of háir, að lánstíminn sé of knappur o.s.frv. (Gripið fram í: Þetta er rangt.) Eftir því sem ég best veit viljum við öll fá betri kjör en í boði eru. En við erum ekki að semja við okkur sjálf, höfum ekki verið að semja við okkur sjálf. Ef það væri reyndin, væri eftirleikurinn auðveldur.

Fari það hins vegar svo að okkur bjóðist betri kjör, lægri vextir, betri lánakjör en eru á samningunum, þá getum við greitt þá upp hvenær sem er á lánstímanum okkur að kostnaðarlausu. 5,55% vextir munu því aldrei hækka, en þeir gætu lækkað ef betri vextir bjóðast og við náum að endurfjármagna Icesave-skuldirnar. Hér er því um hámarksvexti að ræða sem geta eingöngu lækkað en ekki hækkað. (Gripið fram í.)

Fjárlaganefnd og aðrar nefndir Alþingis héldu í sumar ótal fundi og kölluðu til sín fjöldann allan af fólki til að fara yfir samningana sem undirritaðir voru 5. júní síðastliðinn. Niðurstaða þeirrar vinnu var sú sem finna má í lögum um ríkisábyrgð á Icesave-samningana sem samþykkt voru hér á Alþingi í ágúst síðastliðnum. Þrátt fyrir að þau lög hafi tekið gildi og séu enn í gildi, hafa þau aldrei náð markmiði sínu, þ.e. að veita ríkisábyrgð á lánasamningana vegna Icesave-reikninga Landsbanka Íslands. Það var skilyrt af hálfu Alþingis að viðsemjendur okkar, Bretar og Hollendingar, féllust á þau ákvæði sem finna má í lögunum, en það gerðu þeir ekki að öllu leyti. Því var nauðsynlegt að bregðast við og leita leiða til að loka málinu með viðunandi hætti, því varla hefur það verið ætlun Alþingis að láta sem ekkert væri ef viðsemjendur okkar féllust ekki á þær breytingar sem Alþingi sjálft óskaði eftir að yrði gert. (Gripið fram í: Það stóð skýrum stöfum í lögunum ...) Héldu hv. þingmenn sem hér gjamma fram í virkilega að málið mundi gufa upp (Gripið fram í: Það stendur í lögunum.) og hverfa?

Frumvarp til breytinga á fyrri lögum hefur verið til umræðu hér á Alþingi og í fjárlaganefnd og öðrum fastanefndum Alþingis undanfarinn mánuð eða svo, ríflega það. Enn sem fyrr hafa fjölmargir aðilar gefið umsagnir sínar á málinu. Eftir margra daga einræður stjórnarandstöðunnar hér á Alþingi gerði forseti þingsins í byrjun desembermánaðar samkomulag við formenn stjórnarandstöðunnar um að fjárlaganefnd yrði falið að leita álita á þeim atriðum sem stjórnarandstaðan óskaði eftir að farið yrði yfir á milli 2. og 3. umræðu. Það hefur verið gert og staðið við það samkomulag í einu og öllu af hálfu forseta Alþingis og fjárlaganefndar, eins og fram hefur komið hér í dag.

Við 2. umræðu málsins fyrr í haust var stjórnarandstöðuþingmönnum m.a. tíðrætt um að samningarnir brytu í bága við stjórnarskrá Íslands og vitnuðu þar til blaðagreinar þriggja lögmanna sem töldu að svo gæti verið. Lögmennirnir þrír nefndu í grein sinni að Icesave-samningarnir kynnu að brjóta í bága við þrjár greinar stjórnarskrárinnar, 1. gr., 40. og 41. gr.

1. gr. stjórnarskrárinnar hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn.“

Hinar tvær greinarnar sem minnst var á hljóða upp á það að ekki megi skuldbinda ríkið nema samkvæmt lagaheimildum og ekkert gjald megi inna af hendi nema til þess sé heimild í lögum.

Þetta var að mati stjórnarandstöðunnar nýr flötur á málinu sem nauðsynlegt væri að fara vel yfir og fá skýr svör við. Stjórnarandstaðan krafðist þess að leitað yrði leiða til að fá tiltekna lögmenn til að fara yfir þetta mál, en þeir færðust síðan undan því þegar á reyndi, sem og fleiri lögmenn sem stjórnarandstaðan leitaði til hvað þetta varðaði. Aðrir lögmenn gáfu fjárlaganefnd hins vegar álit sitt á þessu atriði. Tveir prófessorar við Háskóla Íslands, þau Eiríkur Tómasson og Björg Thorarensen, sendu frá sér sameiginlegt álit og sömuleiðis gaf Helgi Áss Grétarsson, sérfræðingur við Lagastofnun Háskóla Íslands, álit sitt á þessum fleti málsins. Niðurstaða þessara þriggja lögfræðinga var skýr, eins og fram hefur komið, ekki nokkur skapaður hlutur benti til þess að samningarnir stönguðust á við íslensku stjórnarskrána.

Það er samdóma álit þessara lögfræðinga þriggja að frumvarpið standist að öll leyti ákvæði stjórnarskrárinnar og Ísland verði áfram lýðveldi með þingbundinni stjórn, eins og segir í 1. gr. stjórnarskrárinnar, hafi einhver efast um það. Umræðan um að fyrirliggjandi frumvarp brjóti hugsanlega í bága við stjórnarskrá er hljóðnuð og um það er ekki rætt lengur.

Í minnisblaði frá 18. september síðastliðnum um skuldir hins opinbera og þjóðarbúsins í heild, sem Seðlabanki Íslands sendi til fjárlaganefndar þar sem gerð var grein fyrir skuldastöðu ríkisins og endurgreiðslu erlendra lána ríkissjóðs á næstu árum, kemur fram að skuld vegna Icesave, þ.e. áætluð skuldbinding vegna ríkisábyrgðarinnar í lok ársins 2010, er áætluð um 230 milljarðar kr., eða rúm 11% af öllum skuldum ríkissjóðs og um fjórðungur af erlendum skuldum ríkisins. Það lætur því nærri að Icesave-skuldirnar verði á endanum um tíundi hluti allra skulda ríkissjóðs í stað þess sem ætla mætti af umræðunni að hér sé um allar skuldir ríkissjóðs að ræða.

Þetta eru athyglisverðar upplýsingar finnst mér í ljósi þess vægis sem Icesave-skuldirnar hafa fengið í umræðum um efnahagshrunið. Og ég spyr mig að því hvers vegna vægið er svona mikið, því það hefur áður komið fram hér á Alþingi að fall Seðlabanka Íslands var stærsti einstaki þátturinn í efnahagshruninu að Icesave-ósómanum meðtöldum.

Því hefur verið haldið fram að samningarnir um lausn Icesave-deilunnar séu óskýrir. Það er rangt. Öll helstu grunnatriði málsins eru eins skýr og þau hafa alltaf verið. Í fyrsta lagi eru upphæðir samninganna ljósar, í evrum, í pundum og í íslenskum krónum eins og þau voru skráð 22. apríl síðastliðinn. Í öðru lagi er lánstíminn ljós eins og hann hefur alla tíð verið. Í þriðja lagi er ljóst hvenær fyrsti afborgunardagur verður. Í fjórða lagi eru vextir af lánunum skýrir, 5,54% fastir vextir eins og margoft hefur komið fram. Í fimmta lagi er ljóst að ekki þarf að greiða af lánunum fyrstu sjö árin. Í sjötta lagi er ljóst hvað gerist ef eftirstöðvar verða af láninu við lok lánstímans. Og fleira mætti telja til í þessa veru.

Samningarnir eru skýrir og hafa verið frá upphafi. Þeir hafa staðist skoðun og þá ber að staðfesta eins og þeir liggja fyrir með því að samþykkja fyrirliggjandi frumvarp um ríkisábyrgð sem hér um ræðir.

Það vill stundum gerast að aukaatriði eru gerð að aðalatriðum og okkur hættir oft til að gera smærri atriði að aðalmálum sem verður til þess að heildarsýnin verður óskýr. Það hefur gerst í þessu máli að hluta til. Í rauninni stöndum við í sömu sporum og við gerðum fyrir hálfu ári eða svo. Fyrir liggja í grunninn sömu samningar og undirritaðir voru í byrjun júní með þeim breytingum sem orðið hafa á þeim í meðförum Alþingis og í samkomulagi við viðsemjendur okkar. Það liggur fyrir að Alþingi þarf að taka afstöðu til þessara samninga, byggða á þeim miklu gögnum og upplýsingum sem safnað hefur verið um málið á þeim tíma sem það hefur verið hér til umfjöllunar. Því hefur verið stillt upp sem eins konar vali, valkosti, hvort Íslendingar eigi eða vilji greiða þær skuldir sem féllu á landið, þá sér í lagi Icesave-skuldirnar. Um það er ekkert val, ekkert frekar en að greiða fyrir fall Seðlabankans, sem verður okkur líklega á endanum dýrari en Icesave-ósóminn.

Við höfum heldur ekkert val um að greiða niður mikinn halla á ríkissjóði, þó svo að við öll vildum losna undan þeim ósköpum líka, en um það er ekkert val. Lausn Icesave-málsins sem hér bíður afgreiðslu á Alþingi er ekki vandamálið. Vandræðagemsana og óreiðumennina er ekki að finna í hópi þeirra sem vinna að lausninni. Þeirra þarf ekki að leita, við vitum hvar þeir eru og við vitum hvar rót vandans liggur.

Virðulegi forseti. Það er þyngra en tárum taki að horfa upp á það hér í sölum Alþingis að þeir sem síst skyldu og þeir sem ættu helst af öllum að finna til ábyrgðar, og þeir sem ættu þess vegna að vera að vinna að lausn þessa máls af fullri einurð, séu þeir sem eru helst að þvælast fyrir lausninni og gera hana tortryggilega á meðan þeir kannast ekki við eigin ábyrgð í einu stærsta máli sem rekið hefur á fjörur þessa þings.