138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:32]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil svara hv. þingmanni því að ég tel mig persónulega hafa lagt mikið af mörkum í sumar við að reyna að ná sátt innan þingsins um þá fyrirvaraleið sem farin var. Ég tel mig hafa lagt mig mjög fram um það. Hv. þingmaður getur fengið það staðfest hjá öðrum hv. þingmönnum sem sitja í fjárlaganefnd, en vegna anna við önnur störf í sumar sá hann sér ekki fært að sitja þar þótt hann væri varaformaður.

Hv. þingmaður sagði að nú ættu menn að hætta að þvælast fyrir samþykkt þessa frumvarps og á þá væntanlega við mig og einhverja aðra. Hv. þingmaður sagði þetta líka þegar fyrsta frumvarpið kom hér fyrst 5. júní. Þá sagði hann að það bæri að samþykkja þetta frumvarp óbreytt, það ætti ekki að eyða miklum tíma í að ræða það. Hv. þingmaður kom inn á það í ræðu sinni að þó að fyrirvararnir hefðu að sumu leyti verið þynntir út, stæði nú eitthvað eftir af þeim. Telur hv. þingmaður frumvarpið eins og það er núna vera skárra en það frumvarp sem var lagt fram 5. júní og hann hvatti eindregið til að yrði samþykkt þá, eins og hann er að gera við þetta frumvarp núna?