138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:35]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einkennilegt að hlusta á hv. þm. Björn Val Gíslason, sem allt frá hausti hefur flutt hér rullu sem minnir miklu fremur á Litlu gulu hænuna en eðlilega röksemdafærslu í því máli sem um er að ræða. Það er ekkert skrýtið að hér séu mikil skoðanaskipti. Hér er mikið í húfi og það brennur á hjá mörgum. Þetta er sérstakt mál að því leyti til að það er ekki pólitískt, þetta er ekkert hvunndags pólitískt mál. Þetta er mál sem að margra mati varðar einfaldlega sjálfstæði Íslands og pólitískar deilur milli flokkanna, alveg sama hvaða flokka, eru smámál sem skipta engu máli í samanburði við það.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Hver er efnahagslegi skaðinn sem hann vék að í máli sínu? Hver er efnahagslegi skaðinn sem er í sigti við gerð þess máls og afgreiðslu eins og það liggur fyrir?