138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:47]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Höskuldi Þór Þórhallssyni fyrir andsvarið og er ánægður sömuleiðis yfir því að hann var mér hjartanlega ósammála því það bendir til þess að ég sé á þokkalega góðri braut í mínum málflutningi.

Ég sagði í ræðu minni að hér væri í grunnatriðum um að ræða sömu samningana og í vor með þeim breytingum sem Alþingi hefur gert á þeim, svo það sé nú rétt haft eftir. Ég stend við það. Þingmaðurinn hneykslast auðvitað á því að þingmenn skuli leggja sjálfstætt mat á þau gögn sem lögð eru fram. (HöskÞ: Ég var að hrósa þér.) Hann gerir lítið úr því og segir með háðstóni að ég sé þess umkominn að leggja mat á þau gögn sem hafa komið fram. Það er okkar hlutverk, hv. þm. Höskuldur Þór Þórhallsson, að leggja mat á þau gögn sem komin eru fram. Þúsundir síðna hafa komið fram um þetta mál frá því í sumar og á þeim gögnum eigum við að byggja okkar ákvörðun.