138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:12]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi fyrri spurningu hv. þingmanns er ég alveg sammála því að á margan hátt hefur staðan róast miðað við það mikla óðagot sem var í október- og nóvembermánuði á síðasta ári. Ég held að einmitt þess vegna hafi okkur haldist uppi að taka þennan langa tíma í að ljúka þessu máli, kreista út fyrstu endurskoðunina hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og fá lánafyrirgreiðsluopnun hjá Norðurlöndunum í kjölfarið, þrátt fyrir að þau gangi þar á svig við skýr skilyrði í þingsályktunum viðkomandi ríkja, jafnt Norðmanna og Svía. Þeir ganga út á ystu nöf gagnvart þeim heimildum sem þeir hafa til að greiða lánin af hendi til okkar og það er því mikið vinarbragð að því frá þeim. Ég held að það sýni einmitt að tíminn hefur unnið með okkur. Við höfum fengið tíma til að vinna úr þessu.

Ég get hvergi fundið því stað hjá Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í hennar minnisblaði að Brussel-viðmiðin hafi verið svikin, því miður. Ég verð að biðja hv. þingmann um að upplýsa mig um hvar það er að finna.