138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:20]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef aldrei vitað til þess að málsvörn okkar vegna neyðarlaganna fælist í því að ekki hafi falist í þeim mismunun. Ég sagði hér áðan að í þeim hefði falist mismunun. Það hefur alltaf legið ljóst fyrir. Málsvörn íslenskra stjórnvalda hefur alltaf falist í því að það hafi verið réttlætanleg mismunun vegna aðstæðna. Hv. þingmaður ætti aðeins að spara stóru orðin.

Það sem ég gerði að umtalsefni áðan var að það hefði verið hægt að gera ríkari skyldu til banka vegna útibúastarfsemi erlendis. Það var til þess svigrúm í löggjöf. Til þess hefði þurft löggjöf. Ég nefndi þetta sérstaklega vegna þess að formaður englakórsins, Sjálfstæðisflokksins, er sem hvítþveginn og ber enga ábyrgð á nokkru sem hér hefur gerst (Gripið fram í.) á undanförnum árum. Hann hefur ásamt flokkssystkinum sínum (Gripið fram í.) lagt á það þunga áherslu að ekkert hafi (Gripið fram í.) verið hægt að gera í þessu máli (Forseti hringir.) vegna þess að hér hafi fyrst og fremst verið um að ræða gallaða evrópska löggjöf. Punktur. (Gripið fram í.) Basta. (Gripið fram í.) Það var svigrúm í löggjöf. Við nýttum það ekki nægilega vel. (Gripið fram í: Ertu að segja að það vantaði lög?) (Gripið fram í: … hvaða lög? …) (Forseti hringir.)